Sarpur fyrir október, 2007

Nafnaval

Við stöndum í ströngu þessa daganna við að reyna að taka endanlega ákvörðun um nafn á litlu snótina. Ég hef komist að því að bæði Carmen og Elektra eru lögleg íslensk nöfn. Mér þykir það alveg borðleggjandi blanda en Soffía er ekki jafn sammála. Einnig er Axelma gott og gilt íslenskt nafn, og gefur þá augaleið að skíra Filippía Axelma, en Soffía er heldur ekki hrifinn af þeirri hugmynd. Þetta er klárlega allt að stranda á Soffíu!

Auglýsingar

Tímanna tákn

Otti, Siggi og Viddi kíktu í heimsókn áðan og við tókum tvo leiki í PES 6 í Xboxinu, allir fjórir í einu sem er frekar sweet. Að geta spilað 4 í einu margfaldar notagildi vélarinnar óneitanlega. Ég stóð við tölvuna og segi við Vidda: „Viddi ætlaru að sínka fjarstýringarnar þínar inn?“ (allt þráðlaust að sjálfsögðu) og þá segir Otti: „Haldiði að það séu nú aðeins breyttir tímar síðan við vorum í Nintendo í gamla daga. Siggeir stendur núna við 42″ tommu sjónvarp og biður okkur um að sínka inn fjarstýringar!“ Við hlóum allir dátt, enda er hálf ótrúlegt til þess að hugsa hversu miklar framfarir hafa orðið í leikjatölvubransanum (og græjubransanum bara almennt) síðustu 15 ár. Pabbi spyr mig alltaf reglulega hvort ég sé ekki orðinn of gamall fyrir tölvuleiki en ég held að ég verði það aldrei. Leikjatölvur eru bara ekki lengur eingöngu fyrir börn, og sennilega er 18+ markaðurinn mun stærri en fyrir þá sem yngri eru. Ætli maður verði ekki í tölvuleikjum á elliheimilinu. Ég sé það alveg fyrir mér. Alveg eins og gamla fólkið spilar félagsvist í dag verðum við saman í PES 2055. Siggi verður þá samt aðeins að róa sig ef hann vill ekki fá hjartaáfall í leiknum.

Hér er svo til gamans skjáskot úr Fifa 95, sem þótti nú ansi flottur í Sega á sínum tíma, og stórt stökk frá Nintendo vélinni.

fifa95.gif

Hér er svo PES:

pes6eurogamer1jd6.jpg

Amfetamín sterar, fyrir ALVÖRU karlmenn!

Fótboltamót Árdegis var haldið með pompi og prakt í Reykjaneshöllinni í kvöld. Í fyrra fórum við í Skeifunni með nokkuð öruggan sigur af hólmi en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Skeifan hefur misst marga af sínum sterkustu mönnum (mig, Rúnka og Agga) og ég er auðvitað kominn í Smáralind. Það er skemmst frá því að segja að lið Smáralindar stóð sig langt undir væntingum. Eftir glæstan 12-0 sigur í fyrsta leik lá leiðin hratt niður á við og við töpuðum öllum leikjunum sem á eftir fylgdu. Hverju er um að kenna? Stórt er spurt.

Formleysi var auðvitað gríðarlegt. Ég var svo móður á tímabili að ég hélt að ég myndi fara að gráta. Liðið var líka fremur illa samstillt, og létu sumir mótlætið fara full mikið í taugarnar á sér. En jæja, við tökum þetta bara næst. Það liggur ekki fyrir hverjir sigruðu mótið, en Bakvinnslan kom nokkuð sterk inn, sem enginn átti von á enda bara feitir/gamlir/sköllóttir kallar í liðinu! Þess vegna svindluðu þeir, og fengu til liðs við sig Daða af Toshiba verkstæðinu (sem er svo sem fyrirgefanlegt), and get this, TRYGGVA FUCKING GUÐMUNDSSON! Ég verð nú að segja alveg eins og er að mér finnst það full mikil lágkúra að fá til liðsins einn af sterkustu sóknarmönnum Landsbankadeildarinnar og skammast sín ekkert fyrir það, því síðast þegar ég vissi vinnur Tryggvi Guðmunds ekki hjá Árdegi. Kannski er ég bara svekktur með úrslitin en mér fannst þetta lélegt. Spurning hvort við tölum þá við Eið fyrir næsta mót?

En af hverju er ég að skrifa þessa færslu klukkan 5 að morgni? Jú ég fékk mér nefnilega ripped fuel svona aðeins til að endast lengur. Efedrín og endorfín er ekki sniðug blanda klukkan 9 að kvöldi ef maður ætlar að reyna að sofna eitthvað komandi nótt. Spurning hvort maður vaki ekki bara í hring eins og Sævar orðaði það (sem er líka vakandi).

Ps. Ég veit að margir bíða spenntir eftir fleiri myndum af litlu snúllunni, a.m.k. hefur gestafjöldinn lítið dottið niður. Staðreyndin er bara sú að við höfum verið freeeekar upptekin við barnauppeldi og svefn þess á milli. Ég reyni samt að bæta úr þessu við fyrsta tækifæri.

Myndir myndir myndir!

Það eru komnar á netið nokkrar myndir af lítilli snúllu, myndirnar er hægt að finna hér eða með því að klikka á myndinni að okkur feðginum hérna fyrir neðan.

Þetta er svona rjóminn, set svo inn fleiri eftir því sem dagarnir líða. Gat aðeins eytt takmörkuðum tíma í myndvinnslu í kvöld þar sem að litlan var aldrei þessu vant óróleg og vildi ekki fara að sofa og svo loksins þegar hún sofnaði toppaði kötturinn þetta með því að koma inn með mús, en það er alveg brjálæðislega mikill músagangur í móunum hér í kring. Spurning hvort að kisan þurfi að víkja, einhvern sem langar í litla sæta kisu?

Rauðhærð prinsessa var það!

Síðastliðinn fimmtudagsmorgun var ég á leiðinni í vinnuna þegar Soffía hringdi í mig og lét mig vita að útvíkkunin væri 4 og barnið ætti að koma í heiminn einhvern tíman þennan dag. Ég tók fréttunum með ró, afboðaði komu mína til vinnu og settist svo niður og las blaðið meðan ég borðaði morgunmat. Svo hringdi Soffía aftur og sagði að ég mætti nú alveg fara að haska mér. Ég kom uppá fæðingadeild um hálf tólf. Ég mátti ekki vera mikið seinna á ferðinni því rúmum 45 mínútum seinna, eða 12:17 að staðartíma var litla prinsessan mætt í heiminn takk fyrir!

714_soffiustelpa.jpg

Sú litla kom sem sagt í heiminn með hvelli. Ljósmóðirinn rétt náði að setja á sig hanska og koma sér fyrir! Út í heiminn valt lítil rauðhærð prinsessa, sem fær greinilega hárlitinn frá skegginu hans pabba síns, og það engan smá lubba. Hún er voða lítil, en þó ekki á neinu hættusvæði, en hún kom í heiminn eftir aðeins 36 vikna meðgöngu, en ekki 38-42 eins og lög gera ráð fyrir. Hún vó 2825 grömm (11,3 merkur) og mældist 47 centímetrar þegar hún kom í heiminn. Fyrirburar eiga það til að vera latir við að sjúga og eru einnig í gulu áhættuhópi. Sú litla hefur verið merkileg dugleg við að tileinka sér sogtæknina en gulan hefur þó aðeins látið á sér kræla og þegar þetta er ritað er hún nýfarin í ljósakassa þar sem hún verður a.m.k. í sólarhring til að vinna á gulunni. Það er þó ekkert að óttast, um 80% fyrirbura fá einhver einkenni gulu og þurfa að fara í kassa. Kassinn er inná stofu hjá okkur og fylgjumst við því með henni hvíla sig næsta sólarhringinn. Svo er bara vonandi að við fáum að fara með krílið heim á morgun.

Flestir sem við þekkjum og könnumst við eru sennilega búnir að frétta af þessum merkisatburði nú þegar. Við erum búin að fá ótrúlegt magn af kveðjum í formi sms, hringinga og heimsókna og kann ég öllum bestu þakkir fyrir þessar hlýju kveðjur. Sú litla hefur enn ekki hlotið nafn en við erum samt með nokkrar hugmyndir sem við erum að melta. Það er því ennþá séns á að koma með tillögur en við áskiljum okkur allan rétt til að hafna tillögum skýringalaust. Meðal tillagna sem borist hafa eru Dagbjört (Daddi), Arna (Arnar Stef) og Guðmunda (Gummi Troy).  Ég leyfi lesendum að dæma fyrir sjálfa sig um gæði þessara tillagna.

Við erum búin að taka fullt af myndum. Ég set inn eitthvað af þeim og frekari fréttir þegar við erum öll komin heim.

Bestu kveðjur,
fjölskyldan Fjörubraut 1229.

Fréttir

Ef það fór framhjá einhverjum á sínum tíma þá er Soffía ólétt, og von er á erfingjanum núna á næstum tveimur sólarhringjum, en legvatnið er runnið lönd og leið. Svo er það fór líka framhjá einhverjum þá erum við flutt uppá Kanavöll. Það er geggjað, 92 fermetra 3ja herbergja íbúð á 50 þúsund á mánuði með öllum helstu heimilistækjum. Það eina sem pirrar mig er bandaríska klósettið. Vatnið flýtur alltaf rétt undir settinu þegar maður situr á því og maður hefur það líka á tilfinningunni að maður geti rekið puttana í hnöllana þegar maður skeinir sig. Notalegt eða hvað?

Meira síðar.

Já svo er ég líka hættur í skólanum tímabundið, hef tekið við stöðu aðstoðarverslunarstjóra (Assistant regional manager) í BT Smáralind um stundarsakir. Ef fólk á leið um Smáralind er það hvatt til að reka inn nefið. Sömuleiðis er fólk hvatt til að leggja leið sína til Keflavíkur þegar það á kost á og reka inn nefið að Fjörubraut 1229, íbúð 1C.

Lohan er komin

Það er öllum hollt að kíkja öðru hverju á Baggalút. Ég verð að játa að ég hef vanrækt þessa ágætu síðu svolítið uppá síðkastið, en ég var vanur að sækja þangað minn daglega skammt. Hef samt reynt að vega aðeins á móti þessu með því að hlusta á Baggalút í ýmsum birtingarformum í útvarpi. En kallarnir hafa engu gleymt, svo mikið er víst. Ég mæli sérstaklega með bloggunum eftir ýmsa heldri menn þjóðarinnar eins og Jónas Hallgrímsson og Bólu-Hjálmar, þau er að finna undir heitinu Ný félagsrit.

Hér eru tvö góð ljóð sem þar er að finna, það fyrra eftir Hallgrím Pétursson, það seinna eftir Bólu-Hjálmar:

fallin af mér fögur hönd
fúið eyra
nefið gengið leið og lönd
ljótt að heyra

drulluskíta helvískt haust
hata ekkert fremur
djöfuls ömurð endalaust
allar vonir kremur

 

Þess má til gamans geta að áður hafði Hjálmar bölvað því hversu heitt sumarið var.

 

Svo má ekki gleyma lesbókinni, en þar kennir ýmissa að grasa. Þar má t.d. finna þessa skemmtilegu staðfæringu á Lóan er komin eftir Enter.

Lohan er komin á kaf oní „snjóinn“
að kaffæra leiðindin – það getur hún.
Hún hefur sagt mér að senn komi „spóinn“,
með „sólskin“ í mali og rakvélarbrún.

Hún er jú fórnarlamb syndanna sinna,
hún sukkar of mikið og vinnur ekki hót.
Hún ættað drekka og dópaðeins minna,
sú dæmalaust vonlitla, lausgirta snót.

Svo að lokum, smá skrípó:


Gullna hliðið

  • 25,670 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

Flokkar

Auglýsingar