Sarpur fyrir janúar, 2008

Uppskrift að góðum afmælisdegi

Átti afmæli gær. Ansi góður dagur svona matarlega séð, og er það ekki það sem skiptir mestu máli? Hefði samt alveg sætt mig við fleiri heillaóskir, en þeir sem klikkuðu á þessu í gær eiga séns að á öðlast fyrirgefningu mína með því að leggja inn kveðjur sem komment við þessa færslu.

En annars leit matseðill gærdagsins svona út:

Hádegismatur: World Famous Cheeseburger og RISA ís í eftirrétt, í boði hússins.
Kvöldmatur: Saltkjöt og baunir! Mamma flýtti sprengidagnum um eina viku og bauð til veislu í gærkvöldi. Í eftirrétt voru svo vægast sagt djúsí tertur.

Ekki hægt að vera annað en sáttur eftir slíka veislu, aðhald hvað?

Auglýsingar

Djúsí hamborgari

Eftir nokkura ára reynslu í hamborgaragerð tel ég mig vera orðinn nokkuð sjóaðan þegar kemur að framreiðslu borgara. Eftir að ég eignaðist grill opnuðust ýmsar nýjar víddir enda grillaðir hamborgarar alltaf betri en þeir sem steiktir eru á pönnu. Áðan vorum við Soffía með helvíti djúsí borgara á borðum, þar sem ég byrjaði bara að steikja og vann mig svo áfram eftir því sem var til í ísskápnum. Útkoman varð ansi hreint bragðgóð og því ætla ég hér að birta „uppskriftina“ svo fleiri geti notið.

Hráefni:

Hamborgarar og hamborgarabrauð
Ostur
Beikonskinka
Egg
Sveppir
Ananas (ananas mauk er að koma sterkt inn, maður smyr því bara á borgarann)
Smjör
Salt, pipar og krydd (mæli með McCormick Grill Mates á borgarana, tær snilld)

Ef að þið hafið kost á því grillið hamborgara. Þá er líka hægt að byrja á meðlætinu inní eldhúsi á meðan. Ef að grillið er ekki í boði (eins og í kvöld þar sem það slokknaði alltaf á því sökum hvassviðris!) mæli ég með því að láta hamborgana steikjast bara uppúr eigin fitu. Ef þeir eru steiktir í olíu verða þeir hálf slepjulegir. (En hvað með smjörið gæti einhver spurt? All in good time my friends!) Kryddið hamborgarana vel með McCormick kryddinu báðu megin og bræðið ost ofan á. Þegar hamborgararnir eru tilbúnir takið þá af pönnunni og geymið þar sem þeir haldast sæmilega heitir. Smellið beikonskinkunni á heita pönnuna, enginn þörf á olíu enda löðrar allt sem heitir beikon í fitu. Otti kynnti mig fyrir þeirri snilld sem beikonskinkan er, snilldar millistig á milli skinku og beikons, the best of both worlds (sem er þó í raun einn og sami heimurinn.) Brúnið skinkuna létt og geymið svo með hamborgurunum. Spælið því næst eggin eftir smekk, mæli þó með að spæla þau báðu megin því annars fer allt á flot um leið og maður sker/bítur í rauðuna. Þegar eggin eru tilbúin fjarlægið þau af pönnunni og geymið með hamborgurunum og beikonskinkunni, því núna er komið að rúsínunni í pylsuendanum. Takið fram sveppina og skerið í sæmilega stóra bita (snilld ef maður kemst í stóra íslenska sveppi), skellið smjöri á pönnuna og sveppunum strax á eftir. Saltið og kryddið eftir smekk og látið svo brúnast vel. Samt ekki um og of því maður vill ekki að sveppirnir verði of slepjulegir, heldur bara svona rétt passlegir.

Þá erum við tilbúin að éta. Auðvitað er það smekksatriði hvernig maður raðar borgara saman en ég persónulega set sósu á bæði brauðin, sveppi neðst, síðan egg, beikonskinku, borgarann og svo ananas þar ofan á. Ég set ekkert grænmeti með þessari blöndu því mér finnst það ekki passa. Þetta er djúsí og sæmilega sveitt blanda svo að grænmetið fær að bíða betri tíma. Svo er auðvitað gott að fá sér smá kartöflusalat með til að toppa allt saman en ég hef það bara með til hliðar svo að borgarinn sé ennþá innan skynsamlegra hæðarmarka.

Þá er bara að skella sér inní eldhús og hefjast handa! Þetta er ótrúlega fljótlegt og þægilegt, og bragðast hreint unaðslega. Verði ykkur svo að góðu.

wbhamburger_wideweb__470x3680.jpg

*Athugið að myndin er sviðsett. 

Snúllan orðin fræg

Ja hvað haldið þið! Kíkti inná heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja áðan og er snúllan okkar ekki bara á forsíðunni! Hér á beinn linkur á fréttina: http://hss.is/Frettir/Item/default.aspx?path=/resources/Controls/8.ascx&C=ConnectionString&Q=Top%203%20News%20350%20chars&Groups=1&ID=613&Prefix=619

Reyndar er greinin ekki um hana nema óbeint og nafnið hennar kemur hvergi fram en skemmtilegt samt að þau hafi valið mynd af henni í þessa frétt.

Ísland loksins að standa undir nafni

Eftir 15 ára bið er loksins farið að snjóa almennilega hérna á suðvesturhorninu. Hér í Keflavík er allt á kafi, en við eigum þó ekkert í heimahagana í Grindavík þar sem það er bókstaflega allt á kafi. Frekar spaugilegt að sjá myndir í fréttunum þar sem fólk er að moka bílana sína útúr sköflum. Mamma sagði mér að sólpallurinn væri orðinn fullur af snjó, en grindverkið þar er um 1,8 metrar á hæð, sem þýðir ansi mikla ofankomu til að fylla þann mikla geymi. Elstu menn segjast ekki muna eftir jafn mikilli snjókomu í Grindavík en það er augljóst að snjóleysi síðustu ára hefur skapað snjóblindu hjá bæjarbúum. Ég man það nefnilega mjög vel að þegar ég var lítill var meira og minna alltaf allt á kafi, og 1993 (þess vegna segi ég í fyrsta skipti í 15 ár) var alveg jafn mikill snjór og núna, ef ekki meir. En eftir 15 ár í óttalegu snjóleysi fer mönnum einfaldlega að finnast að það hafi hreinlega aldrei snjóað.

Ég er þó ekki þjakaður af þessari skynvillu, enda bjó ég á Akureyri í 4 vetur, og þar var nú allra veðra von, og oft afar snjóþungt. Fyrstu tvö árin fyrir norðan var ég við öllu búinn á litla Sunny-num mínum og í skottinu var ég með skóflu, spotta, teppi og ýmislegt fleira ef maður skyldi lenda í vandræðum. Svo lenti maður aldrei í neinu og á endanum fóru þessir hlutir að týna tölunni. Það kom mér því óþægilega á óvart í gærmorgun þegar ég þurfti loks á þessum græjum að halda, a.m.k. skóflunni. Ég og Soffía vorum á leiðinni í bæinn og ég ætlaði út að skafa. Mig rak í rogastans þegar ég sá allan snjóinn. Ég lét þó engan bilbug á mér finna og byrjaði að sópa snjóinn af bílnum. Það var aðeins einn bíll búinn að yfirgefa stæðið og það var jeppi og ég hugðist einfaldlega feta í hans fótspor og dúndra útaf bílastæðinu. Það er skemmst frá því að segja að ég festi bílinn á bílastæðinu nánast samstundis. Snjórinn var mjög djúpur og svellbúnki þar undir. Viddi var líka ennþá heima og hann reyndi að hjálpa mér að ýta bílnum en það var ekki séns að bifa honum.

p1000996.jpg

Hér að ofan sést svo bíllinn, pikkfastur og snjórinn ört vaxandi. Þarna stóð hann fram að kvöldmat og blokkaði alla umferð um stæðið (ekki það að nokkur annar ætti möguleika á að keyra í þessu færi). Pabbi kom svo á prammanum og bjargaði mér, en hann hafði eytt öllum deginum í að draga fólk í Grindavík.

Svo hefur bara haldið áfram að snjóa, en ég kemst nú samt í vinnuna. Færið er samt oft slæmt og eftir vinnu í dag var t.a.m. bölvað vesen að komast leiðar sinnar. Einu sinni næstum runninn útaf og síspólandi. Bara feginn að fá engan aftaná mig í þessu hörmulega færi. Ég er til allrar hamingju á þokkalegum vetrardekkjum en Rúnki er ekki jafn vel búinn, á sléttum sumardekkjum. Hann á heldur enga sköfu. Tók þessa mynd eftir vinnu í dag, en mér reiknaðist til að það væri sirka 15 cm snjólag á bílunum okkar.

dsc00361.jpg

Svekkelski

Djöfull hlýtur Sam Allardyce að vera svekktur að hafa verið rekinn fyrir að ná meðal árangri með meðallið. Óraunhæfur kröfur ár eftir ár hjá stjórnar- og stuðningsmönnum Newcastle enda alltaf í tómum vonbrigðum, gráti og gnístan tanna. Ég held að ég myndi afþakka boðið ef mér yrði boðið að taka við stjórnartaumunum hjá þessum trúðum, kröfurnar eru bara of óraunhæfar og þolinmæði virðist ekki vera til staðar.*

* (Auðvitað myndi ég samt aldrei afþakka þetta ef MÉR persónulega yrði boðið þetta, ekki á hverjum degi sem einhverjum pjakk frá Íslandi er boðið að taka við stjórninni í ensku úrvalsdeildinni!)

Krimmi

Pissaði upp við staur í gær, tvisvar meira að segja. Vil þó ekkert gefa frekar upp um þessar aðfarir þar sem ég vil ekki hætta á að víkingasveitin stormi inná heimili mitt til að sekta mig fyrir þetta.


Gullna hliðið

  • 25,682 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

Flokkar

Auglýsingar