Sarpur fyrir apríl, 2008

Já en hann byrjaði!

Þó svo að pósturinn í gær hafi verið í lengri kantinum þá er ýmsu við hann að bæta. Í raun var hann ekki nema rétt svo toppurinn á ísjakanum. Mig langar rosalega að tala meira um mótmælin sem slík, hversu heimskuleg þau eru og hvernig þau missa algjörlega marks. En það skiptir engu máli hvað ég skrifa, allt sem segja þarf hefur þegar verið ritað, af Pétri Gunnarssyni og er pistil hans að finna hér. Þessi pistill er eins og skrifaður beint frá mínu hjarta og hvet ég alla til að lesa hann. Það er nefnilega alltaf að koma betur og betur í ljós að eldsneytið er óttalegt aukaatrið í þessum mótmælum og því verð ég alltaf jafn pirraður þegar Sturla Jónsson veður uppi og segir að þjóðin sé á bakvið hann. Hvílík endemis vitleysa, það virðast ekki einu sinni allir bílstjórar vera á bakvið hann!

Sturla var spurður í gær hvort að eining væri í þeirra hópi um aðgerðirnar. Sturla hvað svo vera en það er þá spurning hvernig maður skilgreinir þennan hóp sem fylkir sér á bakvið Sturlu. Það eru nefnilega margir bílstjórar sem eru orðnir þreyttir á þessari vitleysu og vilja bara vinnuna sína. Hér að neðan er myndband af einum slíkum bílstjóra sem var að reyna að vinna vinnuna sína í gær þegar einhver ætlaði að sýna samhug í verki og blokkeraði hjáleiðina framhjá OIís. Myndbandið talar sínu máli.

Sturla er auðvitað heill kapítuli útaf fyrir sig. Verri talsmann er sennilega ekki hægt að hugsa sér. Vanhæfur leiðtogi og í raun ekkert nema eiginhagsmunaseggur. Gasprari eins og hann var einhversstaðar kallaður. Pétur Tyrfingsson bloggar snilldarlega um Sturlu og vanhæfni hans hér. Niðurlagið er sérstaklega gott, Sturla ætti að biðja Pétur um leyfi til að fara með þessa ræðu næst þegar hann ætlar sér einhverjar gloríur.

Talandi um samstöðu í hópi bílstjóra, þá langar mig að lokum að minnast aðeins á atvikið sem kom uppá í dag, þar sem lögreglumaður var kýldur kaldur af bílstjóra. Auðvitað breytti Stulli vinur minn því í einhvern sirkus þegar hann sagðist ekkert kannast við sökudólginn, en svo kom uppúr krafsinu að um var að ræða mann sem hefur hingað til komið fram sem einn af talsmönnum bílstjóra. Ekki nóg með að hann sé talsmaður þeirra, heldur einnig ágætis kunningi Sturlu og hafa þeir komið fram saman oftar en einu sinni (hann er þarna lengst til hægri á myndinni, og Sturla fyrir miðju). Ef að Sturla og þessi maður, Ágúst Fylkisson, eru þeir skárstu sem bílstjórar hafa úr að velja sem talsmenn þá er nú ekki um auðugan garð að gresja í mannauði hjá þeim blessuðum. Þetta atvik rýrir óneitanlega bæði málstað og trúverðuleika bílstjóranna.

Myndband af atvikinu er að finna hér. Ég skil ekki alveg hvað þessum manni gekk til. Lögreglan var að fara að afhenda bílana og þá fær hann allt í einu þá frábæru hugmynd að kýla lögreglumann. Horfið á þetta með hljóði og takið eftir því hvað hann segir við lögregluna, eitthvað á þessa leið: „Heyrðu ég er að tala, hvað er þetta kærastinn þinn *kjúklingahljóð*“ Hvað í andskotanum var maðurinn að pæla? Var hann að leita að slagsmálum og veseni? Bitur eftir gærdaginn ef til vill? Sennilega svarar lögreglumaðurinn honum einhverju sem fer svona fyrir brjóstið á Ágústi að hann telur besta kostinn í stöðunni að verja heiður sinn. Eða já… mér er þetta með öllu óskiljanlegt. En svo er það rúsínan í pylsuendanum – af hverju í fjandanum fer einhver fábjáni að klappa? Fyrir hverju í andskotanum var hann að klappa? „Já! Kúkum á kerfið! Fuck the police!“ Kannski var það það sem hann hugsaði, ég hreinlega veit það ekki, svei mér þá!

Auglýsingar

Lögreglan sýnir klærnar

Mikið er ég ánægður að lögreglan á Íslandi sýndi loksins að hún er með pung og gerði það sem ég borga fyrir með skattpeningunum mínum. Það er til lítils að borga endalaust undir lögguna ef þeir ætla svo bara að eyða öllu púðrinu í pissandi fyllibyttur í miðbænum en sitja hjá aðgerðarlausir á meðan óhefðlaðir barbarar vaða uppi með skrílslæti óáreittir. Það var kominn tími til að sýna þessum „friðsömu“ mótmælendum hvar Davíð keypti ölið.

Ég verð nú að játa að mér brá eilítið þegar ég sá að óeirðalögreglan var mætt á svæðið, grá fyrir járnum. Mér brá reyndar mest því ég vissi ekki einu sinni að við ættum svona öfluga sveit, en mér brá líka því ég hélt að þarna væri örlítið overkill í gangi. En það er víst lögreglunnar að meta hvernig best sé að bregðast við ástandi sem þessu hverju sinni, og ef að þeir ákveða að það þurfi að kalla út óeirðasveit, þá verða menn bara að gjöra svo vel að halda sig á mottunni.

Allt tal um valdníðslu lögreglunnar á ekki við í þessu máli. Ef að lögreglan biður þig um að færa þig af Þjóðvegi eitt þar sem þú ert að teppa umferð þá færiru þig og ekkert múður. Ef þú hefur eitthvað við það að athuga geturu komið kvörtunum þínum á framfæri seinna, þegar þú ert búinn að færa þig. Sumir tregir mótmælendur virðast hins vegar líta á það sem einhverskonar ögrun ef að lögreglan beitir þeim tólum sem hún hefur yfir að ráða, og þess vegna sé það besti kosturinn að hjóla í þá. Lögreglan fær alla mína samúð að þurfa að fást við svona bjána. Mótmæli eru ekki friðsöm ef veist er að lögreglu. Hvað sem hver segir um valdníðslu og óþarfa hörku af hálfu lögreglu þá þarf jú alltaf tvo í tangó.

Fyrir mitt leyti þá er ég fyrir löngu kominn með alveg upp í kok á þessum helvítis mótmælendum og þeir fá enga samúð frá mér. Þeir brjóta lög trekk í trekk en spila sig svo sem fórnarlömbin í þessu máli. Það varðar við lög að raska umferðaröryggi og það gera þessir menn sig seka um aftur og aftur. Bíðum bara og sjáum hver verður fórnarlambið þegar einhver deyr vegna þess að öll umferð var stopp og sjúkrabíllinn sem átti að flytja þann aðila á sjúkrahús kemst ekki leiðar sinnar.

Margir tala um frelsissviptingu í þessu samhengi, sem sé að vörubílstjórarnir séu að halda mönnum í gíslingu með þessum lokunum sínum. Aðrir blása á slíkar fullyrðingar og segja að „þó að þú sért 15 mínútum lengur heim úr vinnunni þá er ekki verið að svipta þig frelsinu.“ Er það þá sem sagt tímalengdin sem skiptir máli þegar menn eru sviptir frelsinu? Er allt í lagi að loka menn í fangelsi svo fremi sem það telur ekki meira en X marga klukkutíma? Er það bara töf en ekki frelsissvipting? Ég veit það a.m.k. að ég var alveg brjálaður þegar ég sat fastur í hálfa klukkustund í Garðabæ og var klukkutíma á leiðinni heim í stað hálftíma. Ef að ég hefði verið með Emilíu grenjandi í aftursætinu hefði ég sennilega púllað Michael Douglas á þetta í Falling Down.

Að lokum, þá vil ég ekki að neinn misskilji það sem ég er að segja. Ég hef svo sem ekkert á móti þessum mótmælum. Mér finnst bensínverð vissulega svívirðilega hátt. Ég kæri mig hins vegar ekki um að þessi mótmæli bitni á mér, né öðrum sem hafa ekkert með þetta blessaða bensínverð að gera. Það lækkar lítið bensínverðið að ég mæti of seint í vinnuna, eða einhver missi af flugi, læknir komist ekki í aðgerð og þar fram eftir götunum. Það eina sem það gerir er að vekja gremju hjá mér og flestum öðrum.

Ég held að það væri ráð að fara og leggja bílnum sínum fyrir framan innkeyrslurnar hjá þessum bílstjórum, og leyfa þeim aðeins að smakka á eigin meðali. Reyndar held ég að það skipti kannski litlu að svo komnu máli þar sem þeir eru flestir ekki að flýta sér neitt, það er nefnilega búið að reka þá.

Af gefnu tilefni ákvað ég að birta þessa færslu líka á hinu mjög svo óvirka Moggabloggi mínu.

Hæðin

Hvað ætli Páli Magnússyni hafa fundist um þá ákvörðun Þórhalls að fjalla um þáttinn Hæðina í Kastljósi í kvöld? Þarna var nú bara á ferðinni hrein og klár auglýsing fyrir þeirra helsta samkeppnisaðila, Stöð 2.

Annars verð ég að lýsa yfir vonbrigðum með þennan blessaða þátt. Þegar auglýst var eftir þátttakendum var eitt af skilyrðum það að maður væri handlaginn. Ég skil nú ekki til hvers vegna það var sett sem skilyrði. Íbúðirnar eru nýjar og öll vinnan er unnin af iðnaðarmönnum og því er þátturinn í rauninni ekkert nema þáttur um innanhúshönnun, sem skorar álíka hátt á mínu áhugasviði og ristilkrabbamein. Upprunalegi þátturinn, The Block, hafði a.m.k. smá fútt. Þar fengu þátttakendur gamlar íbúðir í niðurníðslu í hendur og þurftu svo að gera ALLT sjálf. Auðvitað mátti kalla til iðnaðarmenn en þá þurftiru að gera það sjálfur (og við vitum öll hvað það er erfitt að fá þá til að mæta á umsömdum tíma) og kostnaðurinn bókaðist á þig.

Þannig að já, Hæðin er ekkert nema vönuð útgáfa af The Block, sem lítið er varið í. Fær falleinkunn í mínum bókum. Finnst samt besti hlutinn af þættinum þegar þeir sýna fyrir og eftir myndirnar, því það er nákvæmlega ekkert að sýna á fyrir myndunum, bara fokhelt herbergi og búið, og eins í öllum íbúðum. BORING.

Charlton Heston 1923-2008

Hinn mikli leikari Charlton Heston er fallinn frá í hárri elli, 85 ára að verða. Fjölskylda hans vill ekki gefa upp dánarorsök í smáatriðum en það er nú svo sem ekkert óeðlilegt við það að rúmlega áttræður alzheimers sjúklingur hrökkvi uppaf.

Heston var svo sannarlega einn af stærstu leikurum síðustu aldar og vann sennilega sinn stærsta leiklistarsigur í Ben Hur 1959 þar sem hann hlaut Óskarinn að launum fyrir frammistöðu sína. Áður hafði hann skapað sér nafn fyrir túlkun sína á Móses í Boðorðunum Tíu, og einhvern veginn tengir maður Heston oft ósjálfrátt við stórar og glæsilegar sögulegar kvikmyndir. Heston lék einnig í upprunalegu Apaplánetunni, löngu áður en nokkur vissi hver Mark Wallberg er. Heston var bæði hávaxinn og vöðvastæltur og með mjög sterka og áberandi viðveru með sinn stóra og meitlaða kjálka.

Flestir munu eflaust minnast Hestons sem mikils leikara en þó er hætt við að einhverjir af yngri kynslóðinni muni ekki eftir myndunum hans og aðeins eftir þeirri hörðu atlögu sem Michael Moore gerði að honum í Bowling for Columbine, en Heston var forseti NRA frá 1998 til 2003. Moore dró þar upp ansi kaldhranalega, og eflaust ekki sanngjarna, mynd af Heston, sem þá var eflaust farinn að þjást af elliglöpum.

Mér þótti Heston alltaf frekar mikill töffari, þó svo að frægðarsól hans hafi vissulega risið sem hæst löngu fyrir mína tíð. Þrátt fyrir marga stóra sigra og stór afrek á ferlinum verður þó alltaf eitt atriði með honum sem mun alltaf standa mér næst. Árið 1993 tók kallin að sér pínulítið cameo hlutverk í Wayne’s World 2 þar sem hann leikur góða leikarann sem leysir lélegan leikara af hólmi í einu atriði. Heston mætir á svæðið, er eins og kóngur í ríki sínu og rúllar hlutverkinu upp. Enginn vafi að þarna er á ferðinni svalasta cameo sögunnar. Þetta atriði súmmerar líka svo vel upp Wayne’s World 2 myndinni, hún er bara of svöl og of fullkomin í alla staði. Hér er atriði, njótið vel

DV að gera gott mót, eins og fyrri daginn

Alltof oft heyrir maður fólk tala um að DV séu slakir í að vinna heimavinnuna sína. Nýjasta dæmið sem ég man eftir er þetta hér. Það sem ég rak augun í í dag er þó ekki nærri eins alvarlegt, en engu að síður mjög klaufalegt og fljótfærnislegt. Í blaðinu í dag er draumagyðja unglingsára minna, Pamela Anderson, kynnt sem „sænska kynbomban Pamela Anderson“. Ekki veit ég á hvaða dufti þessi ágæti blaðamaður hefur verið, en síðast þegar ég vissi var Pamela fædd í Kanada og svo sannarlega ekki í Svíþjóð. Það eru smáatriði eins og þessi sem skemma fyrir heildarmyndinni hjá hinu ágæta blaði DV. Ef að menn þekkja ekki Pamelu í þaula, hvernig ætlast þeir þá til að maður trúi því að þeir viti eitthvað um heimsmálin og önnur málefni líðandi stundar?

Minesweeper the movie

Gummi bloggaði nýlega um 5 bestu bíómyndirnar byggðar á tölvuleikjum. Þær eru vissulega jafn misjafnar og þær eru margar og oftar en ekki er söguþráðurinn þynnri en málsvörn Hannesar Hólmsteins og metnaðurinn við gerð þeirra í algjöru lágmarki. Gróðasjónarmiðin verða því miður oftar en ekki ofan á og menn reyna að leysa inn smá gróða útá frægð leikjanna. Trailerinn hér að neðan er því miður ekkert nema trailer, en ef um alvöru mynd væri að ræða er ég nokkuð viss um að hér væri mynd ársins á ferð.

„What do we do now?!?“
„Now? We guess“

Aumingja Hannes II

Er það bara ég eða minna lyktir Hannesarmálsins, þ.e. iðrun Hannesar og loforð hans um bót og betrun, óþægilega á endinn á örsögunni minni um Hannes? Það skyldi þó aldrei vera að Hannes hafi rekist á söguna og fengið frá henni innblástur? Það verður reyndar að teljast frekar ólíklegt. Það er eiginlega líklegra að ég hafi öðlast einhverskonar spámannshæfileika sem brjótast svo fram í örsögum. Eina leiðin til að sannreyna þetta er að skrifa fleiri sögur.

Annars verð ég að lýsa yfir vonbrigðum mínum með það hvernig Háskólinn ákvað að taka á þessu máli. „Skamm skamm Hannes! Svona má maður ekki!“ Rektorinn sló létt á fingur Hannesar og allt er fallið í ljúfa löð. Virðing skólans beið óneitanlega hnekki útaf þessu fíaskói. Ef að brottrekstur kom ekki til greina hefði a.m.k. mátt veita Hannesi stöðulækkun.


Gullna hliðið

  • 25,682 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

Flokkar

Auglýsingar