Sarpur fyrir júlí, 2008

Undarleg lög á heilanum

Flestir kannast við það að fá lag á heilann. Lang oftast fær maður einhver hundleiðinleg lög á heilann en svo fær maður líka stundum þokkaleg lög á heilann, þá gjarnan eitthvað sem maður er búinn að vera að hlusta mikið á. Í gær fékk ég þetta lag á heilann:

Ágætt lag samt. Ekkert spes band. Held að Blink hefðu aldrei orðið sérlega stórt nafn ef ekki væri fyrir MTV. Þeir mega eiga það að þeir gerðu ágætis myndbönd.

Í gær var ég hins vegar með stórundarlegt á heilanum, og ég kann engar skýringar á því hvers vegna, né raunar af hverju Blink lagið. Ég raulaði All the small things í allan dag, en ég lét mér nægja að raula þetta lag innra með mér:

Eins og ég segi, ekki hugmynd.

Ps. Youtube benti mér á þetta lag. Finnst það alveg nokkuð kúl, svona miðað við að þarna er 13 ára gutti á ferð. Djöfull er hann samt emo.

Auglýsingar

Síðasti bóndinn í dalnum

Á forsíðu Fréttablaðsins í gær er viðtal við Guðmund Ólafsson refabónda, en hann hefur núna síðasta eitt og hálft árið verið eina starfandi refabóndinn á landinu. Það er af sem áður var þegar loðdýrabú spruttu upp eins og gorkúlur um allt land og urðu 200 þegar mest var. Allir ætluðu að verða ríkir á loðdýrarækt en svo fór þetta allt saman meira og minna á hausinn. En Guðmundur er þó að minnsta kosti bjartsýnn, það færi þó aldrei svo að það færi að fjölga á ný í greininni? Nóg er til af húsnæði undir þennan búskap, svo mikið er víst.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort að þetta sé hin einna sanna íslenska leið, allir að verða ríkir á einni nóttu, á því nákvæmlega sama. Ef að einn Íslendingur eygir minnstu gróðavon í nokkrum sköpuðum hlut þá er þess ekki langt að bíða að allir hinir 299.999 komi í humátt á eftir og ætli líka að græða.

Einu sinni ætluðu allir að rækta lax. Bara fyrir utan Grindavík voru a.m.k. þrjú laxeldi. Aðeins eitt þeirra er starfandi í dag, og það er í eigu Samherja og þar er ræktaður þorskur, ekki lax. Rétt eins og refabúskapurinn þá finnst manni óneitanlega eins og hafi verið farið full geist í framkvæmdir, en Íslendingar eru hvatvís þjóð sem hefur ekki tíma til að eyða í neitt hangs, hlutirnir verða að gerast strax í dag, og helst í gær.

Svo ætluðu allir að græða á DeCode. Ég þori að hengja mig uppá það að það þekkja allir í það minnsta einn aðila sem fjárfesti í DeCode á sínum tíma, og ég tel góðar líkur á því að þú þekkir líka einhvern sem tapaði aleigunni, í það minnsta ævisparnaðinum.

Svo þegar allir voru búnir að fara á hausinn í laxeldi, refaeldi og manneldi ætluðu allir að græða á því að kaupa banka. Það sér reyndar ekki alveg fyrir endann á þeim bisness, en mér sýnist á öllu að menn hafi kannski farið full hratt í fjárfestingarnar.

Eru hlutabréfaviðskipti í raun bara minnkabú 21. aldarinnar?

Paul Ramses farinn að fara í sturtu

Eftirfarandi tilvitnun er tekin úr þessari frétt á vísir.is:

Paul Ramses bíður nú niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins í Róm á meðan kona hans og barn dvelja hér á landi. Ramses segir frekar erfitt að vera í Róm ekki aðeins sé erfitt að vera fjarri fjölskyldu sinni heldur sé einnig mjög heitt þar. „Það er mun heitara hér en ég er vanur, það er meira að segja heitara hér en í Keníu. Ég þarf að fara í sturtu þrisvar á dag en í Keníu þurfti ég aldrei að fara í sturtu“ segir Ramses.

Mikið er ég feginn að Ramses er farinn að fara í sturtu, eftir að hafa aldrei farið í sturtu í Kenía. Hann hefur eflaust verið farinn að lykta ansi illa, kannski er það ástæðan fyrir því að honum var vísað úr landi?

Berdreyminn?

Klukkan 6 í morgun var ég eitthvað að rumska milli svefns og vöku, og fór að einhverjum ástæðum að pæla hvernig Grindavík-KR hefði farið í gærkvöldi. Jú, 2-1 mundi ég alltí einu, Scotty skoraði sigurmarkið. Svo fór ég aftur að sofa. Klukkan 7 vaknaði ég svo og fór að velta þessu fyrir mér. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig leikurinn fór, ég vissi bara að leikar stóðu 1-1 í hálfleik. Ég tók því upp símann og skellti mér inná fótbolta.net og viti menn, leikurinn fór 2-1, og Scotty skoraði sigurmarkið!

Stundum hræði ég sjálfan mig.

Enn af saurláti

Ástkær dóttir mín Emilía Snærós var búin að koma sér upp mjög fínni rútínu þegar kom að því að kúka. Hún kúkaði sem sagt orðið bara einu sinni á dag, strax í dögun þegar hún vaknaði. Þó það sé óneitanlega frekar leiðinleg leið til að byrja daginn að skipta á illa lyktandi kúkableyju þá er samt ágætt að ljúka því leiðinda skítverki einfaldlega af og þurfa svo ekki að hafa frekar áhyggjur af saurláti það sem eftir er dags, nema kannski þá manns eigin.

En nú eru breyttir tímar. Emilía er að breytast í litla kúkavél og er farin að kúka allt að þrisvar á dag! Sumir myndu kannski halda að þetta væri kostur, minna magn í hvert skipti og þannig væri álaginu í raun dreift jafnar yfir daginn. Raunveruleikinn er hins vegar algjör andstaða. Hvert skipti er alveg jafn erfitt og þetta eina var til að byrja með, og svo dreifist lyktin ekkert í þrennt, heldur mætti frekar segja að það sé búið að margfalda óþefinn með þremur!

Já það er fátt eins skemmtilegt og að skipta á kúkableyjum.

Bestu kveðjur,
heimavinnandi húsfaðirinn Siggeir.

Meintir sumarsmellir

Nei hættu nú alveg. Nógu leiðinlegt þótti mér nú Bahama lag þeirra Veðurguða, ég skil engan veginn hvernig það varð svona gríðarlega vinsælt. En nóg um það, nú hafa fleiri íslenskar hljómsveitir greinilega séð sér leik á borði og ákveðið að feta í fótspor Veðurguðanna en hljómsveitin Bermúda hefur nú gefið út lag með sama nafni, sem er óneitanlega nokkuð keimlíkt Bahama. Hvaða helvítis suðurhafseyja þema er þetta í íslenskum sumarlögum 2008. Hvað verður það næst, Skítamórall með lagið Kúba?

Þjónustu vonbrigði

Í gegnum tíðina hef ég verslað mjög mikið við Tölvuvirkni. Hef keypt hjá þeim margar tölvur og íhluti, og einnig beint vinum og vandamönnum þangað til að versla, þá sérstaklega vegna þess hversu frábær þjónustan hefur alltaf verið hjá þeim. Þjónustan hjá þeim er persónuleg, áreiðanleg og líka hröð. Í þau fáu skipti sem ég hef þurft að setja eitthvað í viðgerð hjá þeim hef ég aldrei þurft að bíða lengur en í sólarhring eftir niðurstöðum. Verðin eru líka alltaf mjög sanngjörn og jafnvel þó svo að þau séu ekki alltaf þau lægstu í bransanum hef ég oft valið Tölvuvirkni fram yfir aðrar verslanir því ég veit að ég er líka að borga fyrir topp þjónustu. Alveg þangað til í gær.

Ég hef verið að leita að skjá fyrir gamla settið enda gamli skjárinn orðinn 10 ára gamall og kominn tími á að endurnýja. (Sá gamli er samt ennþá í fínu formi og gæti eflaust gengið í önnur 10, they don’t make them like they used to anymore). Ég hafði aðeins skoðað úrvalið á netinu og ákvað að skella mér á 20 tommu skjá hjá Tölvuvirkni sem var ekki alveg ódýrastur en það munaði svo litlu á honum og öðrum sambærilegum skjám að ég ákvað að taka þann skjá þar sem hann var jú í sölu hjá Tölvuvirkni. Skjárinn mátti ekki vera hærri en 40 cm svo ég hafði ekkert skoðað stærri skjái en þegar ég sá verðið á 22″ BenQ skjánum kitlaði það óneitanlega að láta splæsa í hann. Ég hringdi því í Tölvuvirkni til að fá upplýsingar um málin á skjánum. Samtalið var eitthvað á þessa leið:

Sölumaður: „Tölvuvirkni góðan dag
Ég: „Já góðan daginn. Ég var að velta því fyrir mér hvort þú gætir gefið mér upp hæðina á 22 tommu BenQ skjánum sem þið eruð að selja?
Sölumaður: „Skjárinn? Hár, í sentimetrum þá?
Ég: „Já.
Smá þögn
Sölumaður: „Nei því miður, ég er bara ekki með hæðina á hreinu.
Ég: „Er þá ekki hægt að mæla hana snöggvast?
Aftur þögn í smá stund.
Sölumaður: „Nei eiginlega ekki.
Ég: „Ha? Er ekkert málband í húsinu eða?“ segi ég hálf hlæjandi.
Enn á ný þögn, nú óþarflega löng.
Sölumaður: „ég má bara ekki vera að því að mæla skjáinn, það er frekar mikil örtröð hérna í búðinni
Smá þögn því ég er svo undrandi yfir þessu öllu saman.
Ég: „Eeeehhh allt í lagi, bless.

HA?!? Mátti hann ekki vera að því að mæla skjáinn? Af hverju bauð hann mér ekki að A) hinkra á línunni eða B) hafa samband við mig aftur þegar hann mætti vera að því að mæla skjáinn. Langt síðan að ég hef orðið var við jafn litla þjónustulund og þarna. Eftir þetta samtal ákvað ég að slá á þráðinn til Tölvuteks, og þar mældi mjög almennilegur sölumaður fyrir mig þrjá skjái meðan ég hinkraði á línunni. Ég lét síðan taka frá 22 tommu Acer skjá sem var töluvert yfir því sem ég ætlaði að eyða, en þjónustan var bara svo góð hjá Tölvutek að ákvörðunin var mjög auðveld.

Síðustu ár hef ég svo gott sem verslað í blindni hjá Tölvuvirkni, og þó ég hafi gert verðsamanburði hef ég í 90% tilfella endað á að versla hjá Tölvuvirkni. Þó ég ætli alls ekki að hætta að versla þar eftir þetta, langt í frá, þá mun ég eftirleiðis ekki hika við að leita annað, þá sérstaklega til Tölvuteks, en þjónustan þar hefur enn sem komið er alltaf verið tipp topp.


Gullna hliðið

  • 25,670 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

Flokkar

Auglýsingar