Sarpur fyrir mars, 2009

Sjarmatröllið Jóhanna Sigurðardóttir?

Það verður seint sagt að blessuð konan hafi hljómþýða rödd.

Auglýsingar

Syndaaflausn í nútímaformi

E-merl uppfærir syndaaflausnin og setur í þægilegan neytendavænan nútímabúning. Svona kann ég að meta.

Undarlegar draumfarir

Eins og allir vita dreymir mig oft bölvaða vitleysu. Síðustu tvær nætur hafa ekki verið neinar undantekningar þar á.

Í gærnótt dreymdi mig að ég væri í partýi og ákvað að fá mér einn smók (sem ég hef btw ekki gert síðan einhvern tímann í MA). Mér líkaði það svona djöfull vel að ég ákvað í framhaldinu að byrja að reykja. Winston held ég, mamma yrði eflaust sátt með það.

Í nótt dreymdi mig svo að ég væri að fara að halda Queen cover tónleika, þar sem ég átti að syngja. Þetta byrjaði eins og einhver tölvuleikur þar sem ég opnaði marga mismunandi kassa til að leita að búningum. En þegar tónleikarnir voru að byrja var enginn mættur, mér sárnaði ekkert smá. En svo fór alltí einu fólk að tínast á staðinn, og þá var staðurinn ekki lengur tónleikahöll, heldur Kaldbakur. Og crowdið var ekkert venjulegt crowd heldur eintómar bullur sem fóru að rústa öllu heima hjá afa. Við reyndum að róa lýðinn með því að spila Slayer en ég áttaði mig fljótt á því að ég get ekki sungið Slayer. Síðan reyndum við KISS en kunnum ekki gripin. Þetta var algjör katastrófía. Mér leið hrikalega þegar ég vaknaði.

Graðfolinn Bjarni Benediktsson

Dr. Gunni líkir Bjarna Benediktssyni við graðfola, fnæsandi graðfola öllu heldur, á bloggsíðu sinni í dag. Ég veit ekki hvort að Gunnar var með þessari líkingu að reyna að sverta ímynd Bjarna, en ég get ekki túlkað þetta á annan hátt en svo að þarna sé um hrós að ræða. Ef að fnæsandi graðfoli getur ekki dregið sjálfstæðisflokkinn uppúr þeim öldudal sem hann er staddur í, þá getur það enginn.

Fallbeygingarhræðsla?

Fallbeygingar virðast vera á undanhaldi í íslensku í dag, sem er stórfurðulegt því að íslenska er jú fallbeygingarmál og allir læra að fallbeygja í grunnskóla. Sérnöfn virðast reynast Íslendingum sérstaklega erfið, og þá einna helst nöfn tengd íþróttum. Lið Akureyrar í handbolta virðist t.d. nánast eingöngu vera til í nefnifalli, í Fréttablaðinu í dag stóð t.a.m. „Mörk Akureyri:“, en ekki Akureyrar. Hamar frá Hveragerði virðist líka ekki beygjast lengra en í þolfall. Á fótbolti.net (sem er nú bara grín síða þegar kemur að íslensku) hefur oft staðið eitthvað eins og „Jón Jónsson, leikmaður Hamar“, „Mörk Hamar skoruðu“ og þar fram eftir götunum. N1 deildin skapar svo náttúrulega fáránlegt beygingarvandamál sem ég nenni ekki einu sinni að eyða orðum í. Mér finnst að það ætti hreinlega bara að banna öll svona ónefni, N1, 365, A4, D3 og eitthvað svona bull sem annar hver maður virðist ekki vita hvernig eða hvort á að beygja!

Mannanöfn eiga líka undir högg að sækja, sérstaklega nöfn sem breytast mikið á milli falla. Ég heyrði fullorðinn mann um daginn segja „Hjá Eigili“ Hjá Eigili! Hvað er í gangi? Tvínefni eru líka voðalega sjaldan beygð af einhverjum ástæðum. Gjarnan er annað nafnið beygt en hitt látið liggja á milli hluta. Ég held t.d. að  allan tíman sem ég var í MA hafi ég aldrei heyrt talað um Örn Þór í eignarfalli, og afar sjaldan heyrt bæði nöfnin hans í sama fallinu. Menn voru gjarnan á leið í tíma hjá „Örn Þóri“, hvað veldur svona vitleysu? Hvaða misskilningur er í gangi þess efnis að það sé nóg að beygja annað hvert orð?

Að lokum, hvað er málið með sögnina að skafa? Skafaði er ekki ein af beygingarmyndum þessa orðs!

Smá mússík

Datt inná smá youtube tónlistar flakk áðan, eins og ég geri gjarnan þegar ég er staddur í Grindavík. Byrjaði á þessari snilld, Time is mine með Toni Iommi og Phil Anselmo (bara hljóð):

Alveg brilliant lag, enda samið af tveimur miklum snillingum. Þeir sömdu þetta fyrir plötuna Iommi, sem reyndar olli mér hálfgerðum vonbrigðum, þrátt fyrir mikinn pótensjal á meistaraverki. Þeir félagar sömdu víst þrjú lög, eitt af þeim er The Bastard, en þriðja lagið hef ég aldrei fundið, þannig að ef einhver lumar á því skal sá hinn sami gauka því að mér undir eins. Einhver stakk uppá því að Pantera ættu að koma saman aftur með Iommi á gítarnum. Fjarstæðukennd hugmynd, en ég held að það yrði æðisgengin snilld, enda Iommi einhver mesti riff kóngur samtímans.

Í framhaldinu datt ég svo inná þetta:

Ozzy verður nú að fá prik fyrir stökkið í byrjun, en mikið hrikalega er hann samt orðinn mikill ellihrumur. Ef hann væri ekki alþjóðleg stórstjarna efa ég ekki að hann gengi við göngugrind í dag, eða staf í það minnsta. En takið eftir trommuleikaranum, enginn annar en Phil Collins! Sumir vilja meina að hann sé besti rokktrommari sögunnar (ásamt Dave Grohl kemur fram þarna í kommentum). Ég veit ekki með það, í mínum huga er hann alltaf gaurinn sem söng Against all odds, In the air tonight og fleiri sykursætar ballöður. Ég er of ungur til að muna eftir Genesis, en þar þótti hann víst mikill frumkvöðull. Í mínum huga á hann alltaf best heima með Bjarna Ara á Bylgjunni. Í sólskinsskapi auðvitað.

Endum yfirferð kvöldsins svo á Black Sabbath og Ozzy í hörkuformi. Árið er 1978 og lagið er Snowblind, eitt af bestu lögum Sabbath. Minn stærsti Sabbath félagi, Geir Ármann fær sérstakar heiðurskveðjur með þessu lagi. Ég þakka fyrir mig í kvöld, þar til næst, góðar stundir.


Gullna hliðið

  • 25,670 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

Flokkar

Auglýsingar