Sarpur fyrir júlí, 2009

Icesave komið til Afríku!

Á dögum komst upp um ansi svæsið bankasvindl í Úganda, þar sem ósvífnir svikahrappar opnuðu banka, tóku á móti innlögnum um stund en hurfu svo á brott með allt saman skömmu seinna. Kom þá einnig í ljós að þeir höfðu greitt fyrir aðföng tengd bankanum, leigu, mat og eitthvað fleira með innistæðulausum ávísunum. Þetta hljómar óneitanlega kunnulega. Mér þykir ekki ólíklegt að þeir hafi fengið þetta viðskiptamódel beint frá Landsbankanum, eða vice versa.

Raunar komst Ásgeir þannig að orði að hann sæi ekki mun á þessum banka á Landsbankanum, nema kannski að annar var með ríkisábyrgð, en ekki hinn.

Auglýsingar

Bönnum Sjálfstæðisflokkinn

Eftir hrun Þýskalands í kjölfar seinni heimsstyrjaldar var Nasistaflokkurinn bannaður. Þegar Sovétríkin hrundu 1991 var Kommúnistaflokkurinn bannaður. Eftir hrun Íslands, er það þá ekki algjörlega borðleggjandi að banna Sjálfstæðisflokkinn, þó það væri ekki nema tímabundið?

Ég skil ekki alveg að menn séu reiðir þeirri ríkisstjórn sem núna starfar, hún ber ekki ábyrgð á ástandinu, hún er bara að reyna að hreinsa upp æluna eftir fyllerí síðustu ríkisstjórna.

Ísland í BNA!

Sá mikli efnahagsvandi sem nú steðjar að okkur Íslendingum kristallast að mestu í þeirri staðreynd að krónan er ónýt og ekki getum við prentað erlendan gjaldeyri til að greiða okkar háu skuldir. Margar lausnir hafa verið nefndar á þessum vanda, og snúa þær flestar að Evru og Evrópusambandinu. Gallinn á þeirri lausn er sá að það tekur djöfull langan tíma að komast þangað inn, og á meðan blæðir þjóðinni út. Hafa þá sumir nefnt einhliða upptöku Evru eða Dollara en við vitum öll að það mælist ekkert voðalega vel fyrir hjá ESB né BNA. Hvað er þá til ráða?

Sumir hafa kastað fram þeirri hugmynd að Ísland gangi einfaldlega í Bandalag ríkja Norður Ameríku. Í sjálfu sér finnst mér sú hugmynd ekkert verri en hver önnur, en sá galli er á henni að það er ekki hægt að ganga bara sisona í BNA, það er ekki einu sinni hægt að senda inn umsókn! Svo er alls ekki víst að Bandaríkjamenn hafi nokkurn áhuga á að fá okkur. Þessum efa væri hægt að eyða með einu símtali, Össur einfaldlega hringir í Hillary og spyr hana, hvort þetta sé einhver möguleiki. Ef hún segir nei getum við einfaldlega hætt að láta okkur dreyma, ef hún segir já, ef til vill eða kannski, getum við byrjað að plotta.

Ég get alveg séð það fyrir mér að Bandaríkjamenn hafi áhuga á að innlima Ísland. Hugsanlegar olíuauðlindir hljóta að virka mjög lokkandi á þjóðina sem drap rafbílinn. Að sama skapi hlýtur þekking Íslendinga á „hreinum“ aflgjöfum að virka lokkandi af sömu ástæðum. Lega landsins með tilliti til auðlinda á sjávarbotni í N-Atlantshafi gæti líka spilað inní, sem og í hernaðarlegu tilliti (það tromp virðist þó vera að missa sinn slagkraft, en við tjöldum auðvitað öllu til til að lokka Kanann hingað.) Þessi hugmynd hefur meira að segja verið reifuð í bandarísku sjónvarpi, af hinum mikla snillingi Bill Maher. Hann var mjög hrifinn af hugmyndinni og sagði að ef einhver væri ósáttur við að ríkin yrðu 51 væri sá vandi auðleystur. „Norður og Suður Dakóta, þið verðið Dakóta“ sagði hann.

En ef að Bandaríkjamenn skella á nefið á okkur, er alls ekki öll nótt úti. Þá legg ég til (og mér þykir þetta jafnvel vænlegri kostur en BNA) að við biðlum til Normanna að gerast hérað í Noregi að nýju. Bjóðum þeim Nýja sáttmála sem tryggir okkur kaupskip á ca. 6 vikna fresti. Tökum upp norska krónu og leyfum þeim að sjá algjörlega um olíuleit og vinnslu við Íslandsstrendur, svo skiptum við gróðanum 50/50. Ég er jafnvel til í 40/60 ef Norðmenn reynast tregir til að sjá aumur á frændum sínum í vestri. Með réttu ætti þeim að renna blóðið til skyldunnar, en hver vill svo sem taka að sér gjaldþrota þjóð?

Þá er einn kostur eftir í stöðunni, sem ég hefur áður reifað hér, en það er að biðla til Rússa. Sá er þó galli á gjöf Njarðar að þegar ég fann uppá þessari lausn vorum við ekki skuldsett upp fyrir haus útaf Icesave. Einhvern veginn sé ég ekki að það henti Íslendingum neitt sérstaklega vel að vera rússnesk nýlenda, með nýlendustjórnina í Kreml. En bara það að ræða við Rússa gæti sett okkur í nýja og miklu betri samningastöðu við Bandaríkjamenn. Ég er nokkuð viss um að ef Óbama fær veður af því að Íslendingar séu eitthvað að gæla við Rússa hringir hann samstundis í Hillary og segir henni að hafa samband við íslensk stjórnvöld undir eins. Ég ímynda mér að símtalið verði eitthvað á þessa leið:

BO: „Hey Hillary, it’s me, B-dog. Didn’t you say that someone from Iceland called you the other day, asking to join the US?“
HC: „Yeah that’s right, someone called Ozzy or something. I just laughed and told him No way José!“
BO: „Yeah about that. Apparently Putin and Russia are planning a massive invasion into the states, that they will launch from Iceland. Call Ozzy and tell them they’re in. Oh yeah, and call south and north Dakota and tell them, starting Monday, they will be just Dakota.“
click 

Kóngurinn er löngu fallinn úr hásætinu sínu

Það er einhver undarleg firring að skjóta rótum í íslensku samfélagi þessa daganna. Gætir hennar helst hjá ungum Sjálfstæðismönnum (en einnig hjá þeim sem eldri eru, og jafnvel ekki einu sinni sjallar) og er hún á þá leið að Davíð Oddsson sé eini bjargvættur þjóðarinnar. Sumir vilja jafnvel ganga svo langt að fá Davíð aftur til forystu í flokknum, og þá auðvitað flokkinn aftur í forystu í þjóðmálum. Í öðrum álíka gáfulegum fréttum hefur einnig heyrst að það eigi að klóna Stalín og endurreisa Sovétríkin undir hans stjórn.

Gullfiskaminni Íslendinga hefur löngum verið þekkt þegar kemur að stjórnmálum, en nú þykir mér steininn taka algjörlega úr. Baldur McQueen gerir þessu glæsilega skil á heimasíðu sinni, þar sem hann talar um FyrirhrunsDavíð og EftirhrunsDavíð, sem eru augljóslega ekki sammála um hvernig eigi að taka á Icesave vandanum:

Fyrir hrun bauðst Davíð ágætt tækifæri á afneita ábyrgð ríkisins á bönkunum.  Það gerði hann ekki, heldur upplýsti breskan almenning um að íslenska ríkið gæti gleypt slíka ábyrgð, þó allir bankarnir hryndu.


Eftir hrun kannast Davíð ekkert við þetta.  Nú þykir honum mesta firra að ríkið gleypi nokkurn skapaðan hlut.

FyrirhrunsDavíð og EftirhrunsDavíð eru dálítið ósammála, en teljast þó að meðaltali hlutlausir.

Kannski karlanginn ætti að lúta því meðaltali og hafa ginið sem mest lokað á ævikvöldinu.

Og helst örlítið lengur.

Á heimasíðu baldurs er svo linkur á þessi ummæli Davíðs í bresku útvarpi.

Davíð ætti að sjá sóma sinn í því að halda kjafti, enda ber hann sjálfur mikla ábyrgð á hruninu. Sjálfstæðismenn sem nú sitja í stjórnarandstöðu ættu að gera slíkt hið sama, enda bera þeir flestir höfuðábyrgð á klúðrinu. Það er t.d. mjög athyglisvert að lesa skrif Guðna Th. í Hruninu þar sem hann bendir á að viðskiptaráðuneyti Björgvins G hafi sett saman aðgerðaráætlun síðasta sumar til að bregðast við bankahruni, en þegar á hólminn var komið héldu Sjálfstæðismenn Samfylkingarmönnum algjörlega fyrir utan atburðarrásina þangað til að það var um seinan, og lugu hreinlega uppí opið geðið á þeim til að fela sannleikann frá þeim.

Þess vegna finnst mér mjög skrítið að Samfylkingin hafi hangið jafn lengi í stjórnarsamstarfinu og raun ber vitni. Mér finnst líka enn skrítnara að Björgvin hafi verið eini ráðherrann sem hafði manndóm í sér til að segja af sér, þegar hann hefði með réttu átt að froðufella af reiði og heimta stjórnarslit (eða eitthvað aðeins minna dramatískt).

Annars sé ég ekki nokkra leið til að mynda sér upplýsta skoðun á Icesave málinu. Það sem mig fýsir mest að vita er hvers vegna jafn eiðarður maður og Steingrímur J skipti um skoðun, eitthvað hlýtur hann að vita sem ég veit ekki. Og ég vil fá að vita það núna strax.


Donnie Brasco og anti climax dauðans

Donnie Brasco, fínasta mynd. Mikið og langt build up að einhverju rosalegu bösti í endann en nei, enginn handtekinn, enginn drepinn (Lefty hugsanlega drepinn, a.m.k. átti hann von á því, en hann átti líka von á því fyrr í myndinni og lifði það ágætlega af). Þessi 500 dollara ávísun í lokin var alveg algjör frat endir. Alveg „I spent 5 years as an undercover agent and all I got was this lousy T-shirt!“

Hvílíkt og annað eins anti climax.


Gullna hliðið

  • 25,682 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

Flokkar

Auglýsingar