Sarpur fyrir júní, 2010

Stóra hómópathíusvindlið

Þar til tiltölulega nýlega hafði ég ekki minnsta grun um hvað nákvæmlega fólst í hómópathíu, eða smáskammtalækningum eins og þetta heitir á íslensku. Raunar hélt ég alltaf að þetta væri einhverskonar grasalækningar, og væru eflaust gagnlegar fyrir einhverja, og lét ég þetta mig litlu skipta. En svo komst ég að því að smáskammtalækningar eru sennilega mesta svindl sem fundið hefur verið upp!

Smáskammtalækningar eru ekki grasalækningar, langt í frá. Smáskammtalækningar snúast um að lækna líkt með líku, en bara í smáum skömmtun. Raunar svo smáum að hlutföllin eru fáránleg. Horfum á þetta kynningarmyndband með hinum mæta fræðimanni Richard Dawkins, okkur til uppfræðslu og yndisauka.

Þar hafið þið það. Hlutföllin eru svo fáránleg að „lyfin“ eru ekkert annað en vatn! Og þetta borgar fólk fyrir! Smáskammtalækningar hafa blessunarlega ekki náð mikilli fótfestu á Íslandi, en í Bandaríkjunum og Bretlandi er þetta bisness sem veltir milljörðum. Í Bandaríkjun eru menn svo farnir að teygja svindlið enn lengra, með því að merkja t.d. kvefmeðul, með orðunum „Homeopathic remedy“ þrátt fyrir að innihaldið sé eins langt frá því að vera útþynntur smáskammtur og hugsast getur. En bara með því að skella hómópathíu á merkimiðann, er hægt að rukka 70% meira en fyrir sambærilegt „alvöru“ lyf! Þetta er auðvitað ekkert annað en vörusvik, en fyrir þessu fellur auðtrúafólk í hrönnum.

Smáskammtalækningar eru vatn. Einu mögulegu áhrifin eru lyfleysuáhrif, en fólk ætti að geta fengið þau án þess að eyða fúlgum fjár til þess eins að láta svindla á sér.

Að lokum skulum við horfa á þetta frábæra uppistand með Dara O’Briain þar sem hann tætir í sig hómópatha og aðra svindlara eins og næringarþerapista.

Að lokum, varist svindlara og kuklara eins og pestina. Takið öllu sem þið heyrið (líka þessum pistli) með fyrirvara. Á Íslandi er einn svindlari búinn að koma sér vel fyrir og græðir vel á því að blekkja fólk og selja því lyfleysuáhrif. Þessi einstaklingur heitir Jónína Benediktsdóttir.

Auglýsingar

Berdreyminn?

Ég geng aldrei með peninga á mér nema í einhverjum algjörum undantekningartilfellum. Ég nota alltaf kort. Á ekki einu sinni seðlaveski. En í nótt dreymdi mig að ég hefði týnt kortinu mínu en fyrir einhverja ótrúlega guðslukku var ég með 500 kall í kortaveskinu mínu sem ég gat notað til að borga í sjoppunni í MA. (Þar var Björn Magnús einnig staddur og söng hátt ‘Skál og syngja’ og ég bað hann vinsamlegast um að halda kjafti.) Þetta dreymdi mig bara rétt áður en ég vaknaði í morgun. Ég vakna og staulast inná bað, ekki enn kominn með fulla sjón í allri birtunni, og þar sem ég stend við klósettið verður mér litið á þvottavélina mér á vinstri hönd og sé í fjarska að það er hvítur og rauður miði klesstur inná glerið á vélinni. Þegar ég færði mig svo nær til að skoða miðann betur sá ég að þetta var hvað? Jú, 500 króna seðill!

Freeeeekar spúkí stöff, ég verð að spyrja James Randi út í þetta í kvöld.

Kontóristinn

Ég sór þess eið fyrir margt löngu að byrja aldrei að drekka kaffi. Mér þótti kaffi vont og það er alkunna að þeir sem á annað borð byrja að drekka kaffi lenda í vítahring koffínfíknar. Svo leið og beið, ég komst í gegnum menntaskóla án þess að byrja að drekka kaffi, og í gegnum 3 sumur af sjómennsku án þess að halla mér að kaffikönnunni. En síðan eru liðin mörg ár. Ég fór að fikta við kaffidrykkju eftir að ég byrjaði í háskólanum, en þó aldrei af neinni alvöru. Drakk bara latté eins og kettlingur, og aldrei nema einn og einn bolla.

Í haust ákvað ég svo að stíga skrefið til fulls og keypti kaffivél inn á heimilið. Keypti Senseo vél af Vidda (þar sem hann átti tvær), lagði ekki í það að kaupa vél sem hellir uppá heilar könnur, enda eins og áður sagði, linur kaffidrykkjumaður fram að þessu tímapunkti. Vélin var töluvert notuð í vetur, en þó alls ekki á hverjum degi og enn var ég nokkuð hófsamur drykkjumaður.

En nú er öldin önnur. Ég er orðinn skrifstofumaður, og á skrifstofu verður maður að drekka kaffi. Það er bara þannig. Maðurinn sem ætlaði aldrei að byrja að drekka kaffi er núna orðinn maðurinn sem hellir uppá kaffið á kaffistofunni á morgnanna! Enn finnst mér kaffi samt ekkert sérstaklega gott.

En mig langar samt alltaf í annan bolla.

Að læra af sögunni

Hverja einustu próftíð síðan ég byrjaði í háskólanámi stend ég frammi fyrir sömu stöðunni. Ég þarf að frumlesa ca 80% alls kennsluefnisins. Auðvitað næ ég svo aldrei að lesa nándar nærri allt efnið, og einkunnirnar endurspegla það sennilega. Þó þær séu reyndar með ágætum, gætu þær alveg verið betri, og það böggar mig pínu að vita það. Mórallinn yfir einkunnunum er þó takmarkaður, því eins og ég segi þá eru þær með ágætum, og með þessu móti hef ég fengið meiri frítíma, tíma til að eyða með fjölskyldunni, og tíma til að eyða í allskonar vitleysu, eins og tölvuleiki og sjónvarpsgláp, sem er auðvitað ómissandi hluti af lífi hvers manns.

Það sem pirrar mig eiginlega mest er að hverja einustu próftíð rek ég mig á það að finnast margt lesefnið (alls ekki allt) bæði áhugavert og spennandi, og finnst frekar svekkjandi að hafa ekki lesið það fyrir tímana og fengið þannig tækifæri til að ræða það við mér fróðari  menn. Hverja einustu próftíð segi ég líka við sjálfan mig: „Nei, nú gengur þetta ekki lengur, næstu önn les ég allt jafnóðum og lendi ekki í þessum vanda.“ Svo er bara alltí einu aftur kominn prófatíð og ég ólesinn. Alveg óskiljanlegt.

Það er stundum sagt að sá sem læri ekki af söguni sé dæmdur til þess að endurtaka hana. Sem verðandi sagnfræðingur get ég vottað að þessi orð eru 100% sönn. Næstu önn ætla ég líka að lesa allt námsefnið jafnóðum.

Hamborgarafabrikkan, taka 2

Eins og alþjóð veit er ég mjög hrifinn af hamborgurum. Ég myndi ekki segja að þeir væru uppáhalds maturinn minn, en segi gjarnan að þeir séu uppáhalds fæðuflokkurinn minn. Ég var því alveg nokkuð spenntur þegar ég heyrði að Simmi og Jói ætluðu að opna nýjan hamborgarastað, en um leið svolítið pirraður yfir öllu hæpinu og hvað þeir fengu fáránlega mikið af fríu plöggi í gegnum 365 miðla, ekki bara í sjónvarpi, heldur líka í blöðum og útvarpi. En sem sannur hamborgaraáhugamaður lét ég það ekki á mig fá og ákvað að gera mér ferð á Hamborgarafabrikkuna við fyrsta tækifæri. Það tækifæri gekk þó ekki betur en svo að ég þurfti frá að hverfa þar sem að það var klukkutíma bið eftir borði! Síðan þá hef ég borðað hjá þeim tvisvar og jafnframt snúið mér annað (Vitabar) einu sinni sökum þess að það var fullt útúr dyrum. Vinsælir þurfa þó ekki alltaf að þýða gæði og ég reiknaði nú kannski með að eitthvað myndi draga úr vinsældum staðarins eftir að nýjabrumið væri að mestu horfið en þegar ég kom þarna í gær klukkan 2 eftir hádegi á virkum degi var engu að síður nánast fullt hús. Það er því greinilegt að Simmi og Jói eru að gera eitthvað rétt, og það er auðvitað bara frábært að það gangi vel hjá nýju fyrirtæki á þessum síðustu og verstu.

En að matnum. Í fyrra skiptið var ég alls ekki ánægður. Ég pantaði mér Mortens (sjá matseðil á heimasíðu Fabrikkunnar). Hamborgarinn var ofeldur, næstum brenndur, grænmetið takmarkað og bernaise sósan bragðdauf. Ég var samt tilbúinn að gefa þeim annan séns. Það eru margir spennandi borgarar á matseðlinum, og þjónustan er bæði hröð og góð, eitthvað sem alltof margir skyndibitastaðir mættu taka sér til fyrirmyndar.

Í þetta skiptið ákvað ég að prófa lambaborgarann, en á honum er bernaise sósa (en ekki hvað?), ostur og hvítlauksristaðir sveppir. Í stuttu máli sagt var ég mjög sáttur með þennan borgara. Í þetta skiptið fann maður virkilega gott bragð af sósunni og sveppunum, sem ég gat varla greint að væru á Mortens borgaranum. Það eina sem ég get sett útá er grænmetið sem er á öllum borgurum, kál, tómatar og rauðlaukur, en það var aðeins sýnishorn af grænmeti á borgaranum. Ein tómatsneið og ca eitt gramm af rauðlauk. Svona stórir borgar kalla á að minnsta kosti þrjár tómatsneiðar, og eins og eina skífu af lauk (sem er btw sennilega ódýrasta grænmetið á markaðnum). Í fyrri heimsókn minni spurði Simmi mig hvernig hefði smakkast og ég benti honum að sjálfsögðu á að hamborgarinn hefði verið ofeldaðar. Hann brást við eins og allir veitingahúsaeigendur eiga að gera. Fór beint inní eldhús og las yfir kokknum. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að hann taki grænmetisábendingu líka vel, það getur varla verið stefna staðarins að spara svona rosalega í grænmetinu. Fyrir 1.395 krónur (og þá á eftir að borga fyrir drykk) vil ég fá eitthvað fyrir peninginn. Annars fer ég bara á besta hamborgarastað landsins og fæ mér beikonborgara með meira grænmeti og gos fyrir 990 krónur. Þar fylgir kokteilsósan líka frítt með, en kostar 95 krónur á Fabrikkunni.

Heilt yfir var ég mjög sáttur eftir þessa heimsókn og borgarinn smakkaðist afbragðs vel. Eins og ég sagði þá eru margir spennandi borgarar á matseðlinum og ég mun án vafa verða reglulega gestur á Hamborgarafabrikkunni.


Gullna hliðið

  • 25,670 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

Flokkar

Auglýsingar