Sarpur fyrir júlí, 2010

Sniðugir Þjóðverjar

Þjóðverjar eru ansi sniðugir á ýmsum sviðum. Þeir elska ekkert meir en reglur og skipulag (eins og kom svo glögglega í ljós í skilvirkni vinnubúða seinni heimsstyrjaldar), og við Íslendingar gætum lært margt af þeim.

Það fyrsta sem ég vil nefna er breytilegur hámarkshraði á þjóðvegum. Á Íslandi er hámarkshraðinn allsstaðar 90, og á stöku stað lægri. Á Íslandi virðir enginn hámarkshraðann nema í undantekningartilfellum. Í Þýskalandi miðast lögbundinn hámarkshraði við aðstæður. Þannig er hann stundum 80 á buðgóttum sveitavegum, en skömmu seinna kannski 110, og jafnvel 130 þar sem aðstæður leyfa. Mesta snilldin þótti mér þó breytilegur hámarkshraði eftir akreinum. Þannig var hann á einum vegi sem við ókum eftir 130 á vinstri akrein en 100 við hliðina. Takmörkin voru gefin til kynna á rafrænum skiltum yfir akreinunum, og þannig væntanlega hægt að breyta þeim eftir aðstæðum, t.d. ef að hann skylli á með hríðarkófi.

Þetta fyrirkomulag væri fullkomið á Reykjanesbrautinni. Ég keyrði hana daglega í heilt ár, og ef ég keyrði ekki á 120 var ég bara fyrir. Oftar en ekki brunuðu langar bílalestir á 140. Breytilegur hámarkshraði er eitthvað sem við Íslendingar ættum að taka upp undir eins.

Annað sem Þjóðverjar gera afar vel eru almenningssamgöngur. Þær eru traustar og skilvirkar. Sporvagnar ganga t.d. hratt og örugglega um Freiburg og menga ekki með útblæstri. Ég er ekki að segja að Íslendingar ættu endilega að taka upp sporvagnakerfi, en þeir ættu að taka upp sama miðakerfi og Þjóðverjar. Þar kaupir maður miðann úr sjálfsala um borð, og miðinn gildir í sólarhring! Sólarhringsmiðar væru stórstíg framför frá klukkutímaskiptimiðunum sem við Íslendingar notumst við í dag.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna er gosdrykkur, nánar tiltekið drykkurinn Mezzo Mix. Flestir kannast við að hafa blandað saman kóki og appelsíni, og líkað vel. Í Mezzo Mixinu er BÚIÐ að blanda drykkjunum saman, svo að útkoman er afar frískandi kóladrykkur. Svona drykk í búðir á Íslandi strax í dag takk fyrir!

Þýskalandsferðin var sumsé í alla staði afar ánægjuleg. Hitinn var að vísu frekar mikill, en við vorum á vel loftkældu hóteli. Svo mátti líka alltaf stinga sér til sunds í næsta stöðuvatn:

Þýskaland kom mér að nokkru leyti á óvart, aðallega vegna þess að ég hafði ekki hugmynd við hverju maður mátti búast, bæði af land og þjóð. Þrjú síðustu skipti sem ég hef farið erlendis hefur það verið til túristasólarstranda, sem eru töluvert öðruvísi staðir en SV-Þýskaland. Mér þóttu furðufáir tala ensku (svona er það þegar ALLT sjónvarpsefni er döbbað), Graham vildi meina að það væri vegna þess að Þjóðverjar vildu ekki gera neitt nema að þeir gætu gert það fullkomlega. Þ.a.l. sleppti fólk því bara að tala ensku ef það hafði ekki fullkomið vald á henni.

Það sem kom mér þó mest á óvart var hversu myndarleg þýska kvenþjóðin er. Af einhverjum ástæðum hafði ég gert mér upp einhverja steríótýpíska mynd af þýskum konum í hausnum, þar sem þær voru loðnar undir höndunum og trukkalegar. Raunin er hins vegar sú að þær minna mjög á íslenskar konur, og þær eru jú þær fegurstu í heimi, eins og hefur verið marg sannað.

Ps. Fyrir þá sem vilja skoða myndir úr ferðinni er þær á síðunni hennar Emilíu: http://nino.is/emiliasnaeros

Auglýsingar

Gullna hliðið

  • 25,670 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

Flokkar

Auglýsingar