AMX.is: Ófrægingarherferð og stanslaus níðskrif

Sú pínlega staðreynd hefur lengi verið kunn, að ritstjóri amx.is, Friðbjörn Orri Ketilsson (hér eftir nefndur Friðbjörn eldri) er gjörsamlega laus við alla tengingu við íslenskan raunveruleika. Sú staðreynd þarf kannski ekki að trufla marga nema kannski hans nánustu, en öllu alvarlegra þykir mér hversu laus við alla sómatilfinningu maðurinn er. Á amx er  nefnilega nafnlaus liður sem kallast Fuglahvísl. Nú er hverjum manni ljóst, að þó svo að reynt sé að fela sig á bakvið nafnleynd á Fuglahvíslinu, að það er Friðbjörn eldri sem þar heldur um penna. Jafnvel þó svo að einhver annar kunni að skrifa pistil við og við (nafn Hannesar Hólmsteins hefur verið nefnt í þessu samhengi) er það þegar allt kemur til alls Friðbjörn eldri sem ber fulla ábyrgð á Fuglahvíslinu sem ritstjóri miðilsins. Ég reyni að lesa Fuglahvíslið aldrei, því ég verð í 90% tilfella svo reiður og pirraður yfir óhróðrinum sem Friðbjörn eldri leyfir sér að skrifa undir meintu nafnleysi. Steininn tók endanlega úr þegar ég las þetta fáránlega hvísl:

Eftirfarandi fréttatilkynning barst smáfuglunum frá Menntamálaráðuneytinu:

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að veita einni milljón króna af ráðstöfunarfé sínu til að styrkja rannsóknir á íslensku háskólakerfi og þætti þess í hruninu. Styrkurinn rennur til rannsóknarstofu um háskóla en Páll Skúlason prófessor og fyrrverandi rektor veitir henni forystu.

Katrín ákveður að setja Pál Skúlason, fyrrum prófessor og rektor Háskóla Íslands til fjölda ára, yfir þessar miklu rannsóknir. Er nú líklegt að hann komist að hlutlausri niðurstöðu – maðurinn sem stýrði skólanum síðustu áratugi? Kannski er það kaldhæðni örlaganna að heimspekingurinn sé nú orðinn dómari í eigin sök.

Smáfuglarnir velta fyrir sér hversu langt sé í að Katrín Jakobsdóttir taki af „ráðstöfunarfé sínu“ og skipi til dæmis Jón Ásgeir yfir rannsókn á útrásinni og „þætti Baugs í hruninu“?

Fyrir það fyrsta þykir mér það ótrúlega ómaklegt að ráðast að Páli Skúlasyni, sem er einn virtasti fræðimaður landsins. Á skrifum hans má glöggt sjá að þarna fer ekki aðeins djúphygginn fræðimaður, heldur skynsamur og heilsteyptur einstaklingur. En það er einmitt nákvæmlega svona sem Fuglahvísl amx virkar. Með því að hrópa nógu hátt og nógu oft lygar og þvælu síast lygarnar á endanum inn og fólk fer að trúa þeim, burtséð frá því hvort einhver fótur sé fyrir þeim eður ei. Ef að maður göslar nógu miklum skít útum allt, hlýtur bara eitthvað af honum að festast.

Hver nákvæmlega er sök Páls í þessu máli? Rétt svar er engin. Svo er því slegið fram að Páll hafi verið stjórnandi skólans í áratugi þegar staðreynd málsins er sú að Páll var rektor skólans í 8 ár og lét af störfum 2005, heilum þremur árum áður en Ísland fór á hliðina „í ölduróti alþjóðlegs fjármálaólgusjós“ svo notuð sé orðræða hægri manna. Blekkingar, lygar og stórfelldar ýkjur Friðbjörns eldri eiga sér engin takmörk, og það er hverjum manni ljóst að hann kann ekki að skammast sín. Það er einlæg ósk mín að engin geri sjálfum sér þann óleik að lesa Fuglahvísl Friðbjörns eldri, það er einfaldlega mannskemmandi og í flestum tilfellum forheimskandi.

Auglýsingar

0 Responses to “AMX.is: Ófrægingarherferð og stanslaus níðskrif”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s
Gullna hliðið

  • 25,652 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

Flokkar

Auglýsingar

%d bloggurum líkar þetta: