Þórbergur og ég

Ég er með blendnar tilfinningar í garð Þórbergs Þórðarsonar. Ýmsir telja Þórberg á pari við Laxness, og undrast það að Þórbergur sé ekki kenndur við framhaldsskóla landsins líkt og nóbelsskáldið. Verandi sá andans maður sem ég er, sem og aðdáandi Kiljans, hefur það alltaf verið á stefnuskránni hjá mér að lesa verk Þórbergs. Ég þóttist því vera kominn í feitt þegar ég fékk Ofvitann að láni fyrir margt löngu.

En staðreynd málsins er sú að Þórbergur er langt frá því að vera auðlesinn, í það minnsta Ofvitinn. Sennilega var það misráðið hjá mér að ætla að lesa hana samhliða því að tefla við páfann. Þannig urðu skiptin sem ég gluggaði í hana alltof sundurslitin, og hvert skipti of stutt. Maður gluggar heldur ekkert í Ofvitann, maður þarf að leggjast yfir hana, í það minnsta gefa sér gott tóm til að meðtaka hana. Ég gafst uppá því að lesa hana í fyrra skiptið, tók hana svo aftur niður úr hillu fyrir nokkru en laut aftur í gras eftir einhverjar 100 blaðsíður. Allt er þegar þrennt er segir einhversstaðar, hver veit nema ég geri enn aðra tilraun til að lesa Ofvitann með lækkandi sól.

En síðustu daga hef ég hins vegar verið að lesa töluvert í ritinu Einum kennt – öðrum bent, sem er safn 20 ritgerða og bréfa sem Þórbergur ritaði á árunum 1925-1970. Er skemmst frá því að segja að ég hef virkilega notið þess að lesa þetta rit, en það er einmitt vel hægt að glugga í það, það er til að mynda afbragðsgott að kippa því með sér í strætó. (Það les enginn Ofvitann í strætó.)

Af því sem ég hef þegar lesið þykir mér opið bréf til Kristins Andréssonar, sem ritað var 1970, standa uppúr. Þar fer Þórbergur um víðan völl og sést glöggt hve hygginn maður, sem og víðlesinn, Þórbergur var. Ófullkomleiki mannsins og brestir í alþjóðasamstarfi voru Þórbergi hugleiknir, en eins og menn sennilega vita var hann mikill áhugamaður um esperantó. Margt af því sem Þórbergur skrifaði þarna fyrir 40 árum á ótrúlega vel við í dag. Sérstaklega þóttu mér eftirtektarverð þessi orð:

En ég er smeykur við, að peningavaldið kysi heldur að tortíma sjálfu sér í atómbruna heldur en að eiga það á hættu að lúta yfirráðum sósíalisma. Þess vegna hef ég ekki mikla von um, að atómstyrjöld verði afstýrt. Þarna liggur hundurinn grafinn.

Tímalaus orðsnilld hér á ferð. Leiddi hugann óhjákvæmilega að þessu stórgóða skýringarmyndbandi hér:

Sjálfur er ég farinn að hallast að því að eina leiðin útúr efnahagsrembihnút heimsins sé einmitt atómbruni.

Auglýsingar

5 Responses to “Þórbergur og ég”


 1. 1 Davið Oddsson ágúst 12, 2010 kl. 12:18 f.h.

  Lifi kapitalisminn!

 2. 3 Gunnar ágúst 12, 2010 kl. 2:04 f.h.

  Ég vill verða Þórbergur.
  Ég vill verða Laxness.
  Pant vera lenín en þú mátt vera Marx.

  Því nú er kominn önnur tíð með ást af öðru tæji og tellefax.

 3. 4 Kristinn ágúst 12, 2010 kl. 10:44 e.h.

  Mér fannst Ofvitinn ekki svo erfiður aflestrar, og þó er ég tregari en andskotinn. En ég las hann reyndar ekki á skálinni.

  Pistlar þínir, þessi og sá síðasti, alveg snilldarskrif.

 4. 5 Siggeir ágúst 13, 2010 kl. 9:35 f.h.

  Mikið var að það kom komment sem eitthvað vit var í 🙂

  Mér fannst Ofvitinn kannski ekki beinlínis erfiður aflestrar, en hann er heldur ekkert léttmeti. Ég komst líka einhver veginn engan veginn í fíling þegar ég reyndi að lesa hann. Ég las fyrstu 10-20 blaðsíðurnar í góðu yfirlæti í ruggustól en átti mjög bágt með að tengjast bókinni. Hún var alls ekki ein af þessum bókum sem maður getur ómögulega lagt frá sér. En eins og ég sagði þá hef ég alls ekki dæmt hana úr leik, hún virkaði mun meira lokkandi á mig í tilraun tvö, og ég hef fulla trú á að ég verði mjög imponeraður eftir þriðju tilraun.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s
Gullna hliðið

 • 25,652 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

Flokkar

Auglýsingar

%d bloggurum líkar þetta: