Sarpur fyrir september, 2010

Gæsaveiðitímabilið hafið

Þá er fyrsti gæsaveiðitúr haustsins að baki. Þetta var reyndar ekki bara fyrsti túr haustsins, heldur líka fyrsta skotveiðiferðin sem ég fer í á eigin spýtur, þ.e. ekki með pabba til að halda í höndina á mér. Svo til allir væntanlegir veiðifélagar forfölluðust, svo að á endanum fórum við bara tveir, ég og Aggi. Þannig að þó að þetta hafi verið fámennt var afar góðmennt. Aggi sá um matseldina og framreiddi dýrindis lamba fillé, ekki amalegt!

Veiðilendurnar í þetta skiptið voru sveitir Borgarfjarðar, nánartiltekið á Mýrunum. Við gistum á Hofsstöðum, þar sem að systir mín hefur ítök, en lögðumst út í landi Þverholts. Við komum á staðinn seinnipart laugardags en þá var vart þverfótað fyrir gæs. Öll tún full og mikið flug. Við eyddum því sem eftir lifði í birtu í að kanna aðstæður og finna okkur hentugan veiðistað og lögðust síðan til hvílu eftir góðan kvöldverð, enda áætlað að vakna klukkan 4. Um 5 leytið vorum við búnir að stilla upp gervigæs og tilbúnir að veiða grimmt, enda handvissir um að sjá gæsir í hundraða ef ekki þúsunda tali miðað við fjöldann daginn áður, og lýsingar Hilmars í Þverholti.

En eftir allar þessar væntingar og vænlega útlit fengum við enga gæs! Raunar komust við bara einu sinni í færi, ég skaut einu skoti og svo stóð byssan á sér. Týpískt! Traffíkin var afar lítil þennan morgun, en við lágum þarna í grasinu í rúma 6 tíma. Ef að þessi veiðiferð er krufin niður má greina skort á þrennu sem kom í veg fyrir veiðar.

1) Skortur á gæsum. Það var einfaldlega ekki mikið um fugla þennan morgun.

2) Skortur á vindi. Þegar það er svona stilltur vindur geta gæsirnar hringsólað að vild áður en þær lenda, sem eykur stórlega líkurnar á því að veiðimennirnir sjáist.

3) Skortur á veiðireynslu. Sennilega vorum við full æstir á flautunum þegar líklegasti hópurinn bjó sig til lendingar. Mig grunar líka að við höfum ekki falið okkur nógu vel.

En þessi túr var til þess að læra af honum. Næst bætum við úr öllu þessu sem klikkaði. Planið er að halda aftur til veiða þegar það verður aðeins meiri vindur, og jafnvel eftir að það fer að frysta meira á nóttunni, en þá skilst mér að gæsirnir hópist meira saman, og streymi líka meira niður af hálendinu.

Um leið og við lágum við túnin í Þverholti lágu Hemmi á Stað og félagi hans við Hofsstaði, en þar er búið að rækta upp kornakur. Þar var sama uppá teningnum, lítil traffík en þeir höfðu þó sex fugla. Það er skemmst frá því að segja að næsta morgun höfðu þeir 60 fugla! Gæsin er svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin, en ég er sannfærður um að það gengur betur næst.

Auglýsingar

Gullna hliðið

  • 25,682 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

Flokkar

Auglýsingar