Sarpur fyrir janúar, 2011

Guð er ekki hér (né annarsstaðar)

Ég hef áður bloggað um þá augljósu staðreynd að guð sé ekki til, og ef hann er til þá er hann asni. Flestir þeir sem á annað borð þakka guði fyrir allt gott sem gerist virðast einfaldlega snúa blindu auga að öllu því slæma sem gerist í heiminum. Sumir reyndar eru tilbúnir að túlka slæma hluti sem órannsakanlega vegi guðs, og ég veit satt best að segja ekki hvor túlkunin mér þykir verri.

Það er endalaust hægt að benda á dæmi um hræðilega hluti sem algóður guð hefði með réttu áttu að koma í veg fyrir. Á dögunum rakst ég þó á mjög persónulegt dæmi. Lestur þess gerði mig bæði reiðan og pirraðan. Eftirfarandi texti er tekin úr bókinni Verndum þau, bls. 32:

12 ára gömul stúlka sagði frá því að hún væri alveg hætt að trúa á guð og ætlaði ekki að láta ferma sig, hún hataði guð. Þetta sagði hún í skólanum í umræðu um fermingar. Þegar rætt var við stúlkuna einslega og hún beðin að útskýra betur hvað hún hefði átt við með tali sínu sagði hún: „Ég hætti að trúa á guð fyrir nokkrum árum. Þegar ég var lítil bað ég guð alltaf um að stjúpi minn kæmi ekki inn til mín á nóttunni en guð hjálpaði mér aldrei því hann kom alltaf. Ég bað og bað um að fá að sofa eina rólega nótt þegar mamma var að vinna en guð hjálpaði mér aldrei. Þá hætti ég að biðja bænirnar mínar því það þýddi ekki neitt. Guð er ekki til, ég hef sönnun fyrir því,“ sagði stúlkan og bætti við: „Ef guð hefði raunverulega verið til hefði hann hjálpað stelpu eins og mér sem bað svona fallega.“

Ofbeldi gegn börnum snertir viðkvæma taug hjá flestum heilbrigðum einstaklingum, og þá sérstaklega þeim sem eiga sjálfir börn eins og ég. Það sem stakk mig þó mest við lestur þessarar harmsögu, er hið innbyggða hjálparleysi sem börnum er innrætt með trúnni. Börnum er kennt að Jesú sé vinur þeirra sem er alltaf hægt að tala við. Ef einhver vill mótmæla og segja að slíkt tal eigi ekki að taka bókstaflega, hvet ég þann hinn sama til að heimsækja kirkju með barninu sínu næst þegar leikskólinn fer þangað.

Í þessu tilfelli setti stúlkan allt sitt traust á uppskáldaða veru sem getur engum hjálpað, en hún trúði því í einlægni að guð myndi hjálpa henni. Það er stundum sagt að trúarbrögð séu mönnum andleg hækja og jafnvel nauðsynleg sem slík, en þarna var trúin augljóslega orðin fjötur um fót og það er hrikalegt til þess að hugsa að stúlkan skyldi ekki segja neinum frá misnotkuninni því hún var alltaf að bíða eftir því að guð myndi grípa inní. Börn eiga flest mjög erfitt með að segja frá því þegar þau eru misnotuð, en vinir þeirra eru oftast þeir sem fyrstir heyra af því. En þegar vinurinn er ekki til í raunveruleikanum eru litlar líkur á að einhver sem raunverulega getur hjálpað muni nokkurn tíman heyra af vandamálinu.

Auglýsingar

Gullna hliðið

  • 25,670 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

Flokkar

Auglýsingar