Archive Page 2

Kannast ekki allir við þennan nemanda?

Auglýsingar

Blogg í kennslu?

Spurt er, er hægt að nota blogg í námi og kennslu?

Svar mitt er já. Bæði nemendur og kennarar ættu að geta nýtt sér kosti þess. Kennarar t.d. geta miðlað námsefni í gegnum það og ég sé fyrir mér að blogg frá kennara gæti nýst vel í fjarnámi. Nemendur geta svo skilað inn allskonar verkefnum, eins og t.d. lestrardagbókum, en gallinn við bloggkerfið er að hver og einn nemandi hefur fulla stjórn yfir sinni síðu, og getur þ.a.l. fegrað verk sín eftir á. Umræður geta líka farið fram á bloggsíðum, en það gerist fyrir algjörlega opnum dyrum, og aftur geta skapast vandamál tengd ritskoðun.

Annar stór ókostur er að blogg eru oftar en ekki persónuleg málgögn þeirra sem þau rita. Ég er þess vegna ekki viss um að það sé æskilegt að tengja einkabloggsíður (eins og þessa) við nám sitt, hvort sem maður er kennari eða ekki. En það er auðvitað enginn vandi að stofna nýtt blogg, þó svo að ég hafi ekki nennt því í þetta skiptið.

Gæsaveiðitímabilið hafið

Þá er fyrsti gæsaveiðitúr haustsins að baki. Þetta var reyndar ekki bara fyrsti túr haustsins, heldur líka fyrsta skotveiðiferðin sem ég fer í á eigin spýtur, þ.e. ekki með pabba til að halda í höndina á mér. Svo til allir væntanlegir veiðifélagar forfölluðust, svo að á endanum fórum við bara tveir, ég og Aggi. Þannig að þó að þetta hafi verið fámennt var afar góðmennt. Aggi sá um matseldina og framreiddi dýrindis lamba fillé, ekki amalegt!

Veiðilendurnar í þetta skiptið voru sveitir Borgarfjarðar, nánartiltekið á Mýrunum. Við gistum á Hofsstöðum, þar sem að systir mín hefur ítök, en lögðumst út í landi Þverholts. Við komum á staðinn seinnipart laugardags en þá var vart þverfótað fyrir gæs. Öll tún full og mikið flug. Við eyddum því sem eftir lifði í birtu í að kanna aðstæður og finna okkur hentugan veiðistað og lögðust síðan til hvílu eftir góðan kvöldverð, enda áætlað að vakna klukkan 4. Um 5 leytið vorum við búnir að stilla upp gervigæs og tilbúnir að veiða grimmt, enda handvissir um að sjá gæsir í hundraða ef ekki þúsunda tali miðað við fjöldann daginn áður, og lýsingar Hilmars í Þverholti.

En eftir allar þessar væntingar og vænlega útlit fengum við enga gæs! Raunar komust við bara einu sinni í færi, ég skaut einu skoti og svo stóð byssan á sér. Týpískt! Traffíkin var afar lítil þennan morgun, en við lágum þarna í grasinu í rúma 6 tíma. Ef að þessi veiðiferð er krufin niður má greina skort á þrennu sem kom í veg fyrir veiðar.

1) Skortur á gæsum. Það var einfaldlega ekki mikið um fugla þennan morgun.

2) Skortur á vindi. Þegar það er svona stilltur vindur geta gæsirnar hringsólað að vild áður en þær lenda, sem eykur stórlega líkurnar á því að veiðimennirnir sjáist.

3) Skortur á veiðireynslu. Sennilega vorum við full æstir á flautunum þegar líklegasti hópurinn bjó sig til lendingar. Mig grunar líka að við höfum ekki falið okkur nógu vel.

En þessi túr var til þess að læra af honum. Næst bætum við úr öllu þessu sem klikkaði. Planið er að halda aftur til veiða þegar það verður aðeins meiri vindur, og jafnvel eftir að það fer að frysta meira á nóttunni, en þá skilst mér að gæsirnir hópist meira saman, og streymi líka meira niður af hálendinu.

Um leið og við lágum við túnin í Þverholti lágu Hemmi á Stað og félagi hans við Hofsstaði, en þar er búið að rækta upp kornakur. Þar var sama uppá teningnum, lítil traffík en þeir höfðu þó sex fugla. Það er skemmst frá því að segja að næsta morgun höfðu þeir 60 fugla! Gæsin er svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin, en ég er sannfærður um að það gengur betur næst.

Blygðunarlausar bitlingsstöðuveitingar

Ég skoða gjarnan vefinn starfatorg.is, þó svo að ég sé ekki í leit að starfi, aðallega til þess að skoða framboð á störfum fyrir framhaldsskólakennara, þar sem ég geri mér vonir um að verða einn slíkur næsta haust. Í dag rak ég augun í starf sem mér þótti nokkuð spennandi. Það er nálægt minni heimasveit, og ég hugsaði með mér að e.t.v. myndi það henta sjálfum mér vel í framtíðinni ef ég léti verða af því að sækja meistaranám í safnafræðum. Umrætt starf er sem sagt: Forstöðumaður – Háskóli Íslands, Stofnun fræðasetra – Sandgerði.

Hvaða kröfur skyldi ríkið gera til umsækjenda? Meðal verkefna forstöðumanns eru:

Forstöðumaður hefur umsjón með starfsemi setursins, fjármálum þess og daglegum rekstri. Meginverksvið er skipulagning rannsókna- og samstarfsverkefna, áætlanagerð og yfirumsjón með fjáröflun. Forstöðumaður þarf að geta tekið að sér að leiðbeina háskólanemum í framhaldsnámi og séð um aðra kennslu á háskólastigi.

Gott og vel, stjórnun og kennsla í bland. Hér þarf eflaust vel menntaðan mann með reynslu af bæði kennslu og rannsóknum. Sjáum hvaða kröfur ríkið setur um menntun:

Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi í eiturefnavistfræði, með áherslu á rannsóknir á lífverum sjávar. Nauðsynlegt er að umsækjendur hafi stundað sjálfstæðar rannsóknir á þessu sviði og tekið virkan þátt í alþjóðasamstarfi

Eiturefnavistfræði? Hvað er eiturefnavistfræði? Þessi krafa hlýtur að dæma ansa marga umsækjendur sjálfkrafa úr leik. Og gott betur en það, þessi krafa virðist þrengja hópinn mjög mikið niður, raunar svo mikið að ég get ekki betur séð en að aðeins einn maður komi til greina, og það er þessi maður hér, Eiríkur Stephensen.

Eiríkur þessi virðist í fljótu bragði vera eini Íslendingurinn sem uppfyllir þær menntunarkröfur sem gerðar eru til forstöðumanns þessa fræðaseturs (athugið að útlendingar dæmast sjálfkrafa úr leik enda krafa um góða íslenskukunnáttu). Einnig er gerð krafa um gott vald á einu Norðurlandatungumáli, en það vill svo skemmtilega til að Eiríkur vann doktorsritgerð sína í Svíþjóð, og ætti því að vera a.m.k. mellufær í sænsku.

Mikið hlýtur það að vera þægilegt þegar störf eru smíðuð svona fyrir mann.


Þórbergur og ég

Ég er með blendnar tilfinningar í garð Þórbergs Þórðarsonar. Ýmsir telja Þórberg á pari við Laxness, og undrast það að Þórbergur sé ekki kenndur við framhaldsskóla landsins líkt og nóbelsskáldið. Verandi sá andans maður sem ég er, sem og aðdáandi Kiljans, hefur það alltaf verið á stefnuskránni hjá mér að lesa verk Þórbergs. Ég þóttist því vera kominn í feitt þegar ég fékk Ofvitann að láni fyrir margt löngu.

En staðreynd málsins er sú að Þórbergur er langt frá því að vera auðlesinn, í það minnsta Ofvitinn. Sennilega var það misráðið hjá mér að ætla að lesa hana samhliða því að tefla við páfann. Þannig urðu skiptin sem ég gluggaði í hana alltof sundurslitin, og hvert skipti of stutt. Maður gluggar heldur ekkert í Ofvitann, maður þarf að leggjast yfir hana, í það minnsta gefa sér gott tóm til að meðtaka hana. Ég gafst uppá því að lesa hana í fyrra skiptið, tók hana svo aftur niður úr hillu fyrir nokkru en laut aftur í gras eftir einhverjar 100 blaðsíður. Allt er þegar þrennt er segir einhversstaðar, hver veit nema ég geri enn aðra tilraun til að lesa Ofvitann með lækkandi sól.

En síðustu daga hef ég hins vegar verið að lesa töluvert í ritinu Einum kennt – öðrum bent, sem er safn 20 ritgerða og bréfa sem Þórbergur ritaði á árunum 1925-1970. Er skemmst frá því að segja að ég hef virkilega notið þess að lesa þetta rit, en það er einmitt vel hægt að glugga í það, það er til að mynda afbragðsgott að kippa því með sér í strætó. (Það les enginn Ofvitann í strætó.)

Af því sem ég hef þegar lesið þykir mér opið bréf til Kristins Andréssonar, sem ritað var 1970, standa uppúr. Þar fer Þórbergur um víðan völl og sést glöggt hve hygginn maður, sem og víðlesinn, Þórbergur var. Ófullkomleiki mannsins og brestir í alþjóðasamstarfi voru Þórbergi hugleiknir, en eins og menn sennilega vita var hann mikill áhugamaður um esperantó. Margt af því sem Þórbergur skrifaði þarna fyrir 40 árum á ótrúlega vel við í dag. Sérstaklega þóttu mér eftirtektarverð þessi orð:

En ég er smeykur við, að peningavaldið kysi heldur að tortíma sjálfu sér í atómbruna heldur en að eiga það á hættu að lúta yfirráðum sósíalisma. Þess vegna hef ég ekki mikla von um, að atómstyrjöld verði afstýrt. Þarna liggur hundurinn grafinn.

Tímalaus orðsnilld hér á ferð. Leiddi hugann óhjákvæmilega að þessu stórgóða skýringarmyndbandi hér:

Sjálfur er ég farinn að hallast að því að eina leiðin útúr efnahagsrembihnút heimsins sé einmitt atómbruni.

AMX.is: Ófrægingarherferð og stanslaus níðskrif

Sú pínlega staðreynd hefur lengi verið kunn, að ritstjóri amx.is, Friðbjörn Orri Ketilsson (hér eftir nefndur Friðbjörn eldri) er gjörsamlega laus við alla tengingu við íslenskan raunveruleika. Sú staðreynd þarf kannski ekki að trufla marga nema kannski hans nánustu, en öllu alvarlegra þykir mér hversu laus við alla sómatilfinningu maðurinn er. Á amx er  nefnilega nafnlaus liður sem kallast Fuglahvísl. Nú er hverjum manni ljóst, að þó svo að reynt sé að fela sig á bakvið nafnleynd á Fuglahvíslinu, að það er Friðbjörn eldri sem þar heldur um penna. Jafnvel þó svo að einhver annar kunni að skrifa pistil við og við (nafn Hannesar Hólmsteins hefur verið nefnt í þessu samhengi) er það þegar allt kemur til alls Friðbjörn eldri sem ber fulla ábyrgð á Fuglahvíslinu sem ritstjóri miðilsins. Ég reyni að lesa Fuglahvíslið aldrei, því ég verð í 90% tilfella svo reiður og pirraður yfir óhróðrinum sem Friðbjörn eldri leyfir sér að skrifa undir meintu nafnleysi. Steininn tók endanlega úr þegar ég las þetta fáránlega hvísl:

Eftirfarandi fréttatilkynning barst smáfuglunum frá Menntamálaráðuneytinu:

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að veita einni milljón króna af ráðstöfunarfé sínu til að styrkja rannsóknir á íslensku háskólakerfi og þætti þess í hruninu. Styrkurinn rennur til rannsóknarstofu um háskóla en Páll Skúlason prófessor og fyrrverandi rektor veitir henni forystu.

Katrín ákveður að setja Pál Skúlason, fyrrum prófessor og rektor Háskóla Íslands til fjölda ára, yfir þessar miklu rannsóknir. Er nú líklegt að hann komist að hlutlausri niðurstöðu – maðurinn sem stýrði skólanum síðustu áratugi? Kannski er það kaldhæðni örlaganna að heimspekingurinn sé nú orðinn dómari í eigin sök.

Smáfuglarnir velta fyrir sér hversu langt sé í að Katrín Jakobsdóttir taki af „ráðstöfunarfé sínu“ og skipi til dæmis Jón Ásgeir yfir rannsókn á útrásinni og „þætti Baugs í hruninu“?

Fyrir það fyrsta þykir mér það ótrúlega ómaklegt að ráðast að Páli Skúlasyni, sem er einn virtasti fræðimaður landsins. Á skrifum hans má glöggt sjá að þarna fer ekki aðeins djúphygginn fræðimaður, heldur skynsamur og heilsteyptur einstaklingur. En það er einmitt nákvæmlega svona sem Fuglahvísl amx virkar. Með því að hrópa nógu hátt og nógu oft lygar og þvælu síast lygarnar á endanum inn og fólk fer að trúa þeim, burtséð frá því hvort einhver fótur sé fyrir þeim eður ei. Ef að maður göslar nógu miklum skít útum allt, hlýtur bara eitthvað af honum að festast.

Hver nákvæmlega er sök Páls í þessu máli? Rétt svar er engin. Svo er því slegið fram að Páll hafi verið stjórnandi skólans í áratugi þegar staðreynd málsins er sú að Páll var rektor skólans í 8 ár og lét af störfum 2005, heilum þremur árum áður en Ísland fór á hliðina „í ölduróti alþjóðlegs fjármálaólgusjós“ svo notuð sé orðræða hægri manna. Blekkingar, lygar og stórfelldar ýkjur Friðbjörns eldri eiga sér engin takmörk, og það er hverjum manni ljóst að hann kann ekki að skammast sín. Það er einlæg ósk mín að engin geri sjálfum sér þann óleik að lesa Fuglahvísl Friðbjörns eldri, það er einfaldlega mannskemmandi og í flestum tilfellum forheimskandi.

Samdráttur og ofþensla

Egill Helgason fjallaði í gær um þann mikla samdrátt sem hefur orðið í smásölu á Íslandi, eða um 15% frá árinu 2007. Þetta er auðvitað gríðarleg minnkun í veltu, og Egill veltir upp eftirfarandi spurningu um mergð íslenskra verslanna:

Maður furðar sig enn á því hvað eru margar verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Sumar matvörubúðir virðast alveg óþarfar. Enginn þar að kaupa neitt.

Það er eiginlega merkilegt að verslunum skuli ekki hafa fækkað meira – maður spyr sig til dæmis hvort Smáralindinni sé ekki ofaukið í þessu árferði.

Nú hef ég sjálfur unnið töluvert á þessu svonefnda smásölusviði frá árinu 2006 og eitt er að minnsta kosti alveg ljóst. Veltan 2006-2007 var ekki komin til að vera og því ekki nema eðlilegt að einhver samdráttur verði.  Margar verslanir hafa lokað. BT er t.d. nánast búið að þurrkast út og í sama bransa er Max skroppin saman. Bólan er augljóslega sprungin. Ég hef frá upphafi haft miklar efasemdir um Smáralindina og í dag er hún nánast bara ein risastór fatabúð. Ég hef hins vegar fulla trú á að hún tóri, en það hefur svo sem gerst áður að verslunarmiðstöðum hefur verið lokað. En þó svo að Smáralindin tóri er turninn sem byggður hefur verið við hana (eða er í byggingu) glöggt merki um stórmennskubrjálæði ofþensluáranna.

Það sem kom mér hins vegar mest á óvart sumarið eftir hrun (2008 þ.e.), þegar ég vann hjá Sony Center í Kringlunni, voru atvinnuauglýsingarnar útum alla Kringlu. Önnur hver fataverslun virtist vera að leita eftir starfsmönnum, og svo man ég líka eftir frétt þar sem einhver verslunareigandi sagðist ekki geta mannað verslun sína. Fatamarkaðurinn á Íslandi virðist nefnilega vera rekinn með ótrúlegri álagningu, sem sést best á 50% útsölum sem eru orðnar normið í mörgum verslunum. Ef þú getur rekið blómlega verslun og veitt reglulega helmings afslátt held ég að þú þurfir ekki að óttast 15% samdrátt frá metsöluári.

En ég get hins vegar tekið undir orð Egils um matvöruverslanirnar. Í mínu hverfi er t.d. 10/11 búð sem er alltaf tóm þegar maður kemur þar. Ég hef samt tekið eftir því að hólfið þar sem kortaafritin eru geymd er alltaf smekk full, svo að kannski er meiri velta þarna en maður gerir sér grein fyrir? Annars er það auðvitað sorglegt hvernig Mjóddin virðist gleypa alla verslun og þjónustu í Breiðholtinu meðan að verslanakjarnar í hverfunum standa svo til auðir og eyðilegir.

Einhverjar verslanir hljóta að hopa af markaði í þessu árferði, annað er óumfljýjanlegt. Af stórum kjörnum myndi ég telja Krepputorgi gjörsamlega ofaukið. Þar stendur hinn fullkomni minnisvarði um óráðsíu síðustu ára. Stundum er eins og menn hafi alveg gleymt að taka það með í reikninginn að Íslendingar eru bara 300.000.


Gullna hliðið

  • 25,682 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

Flokkar

Auglýsingar