Sarpur fyrir september, 2009

Ígulhressir sköpunarsinnar

Þann 24. nóvember næstkomandi verða liðin 150 ár síðan að ein merkasta bók allra tíma, Uppruni tegundanna, kom út. Bókin var gríðarlega umdeild þegar hún kom út á sínum tíma en með árunum hafa flestir skynsamir menn  tekið undir þróunarkenningu Darwins og um leið hafnað sköpunarkenningunni að öllu eða mestu leyti. Bandaríkjamenn eru þó ekki alveg jafn sannfærðir, og raunar eru ekki nema helmingur þeirra sannfærður um sannleiksgildi þróunarkenningarinnar. Margir Bandaríkjamenn vilja meira að segja að sköpunarkenningin verði kennd í skólum, og falli þá undir náttúrufræðikennslu!

En nú hafa sköpunarsinnar ákveðið að stíga skrefi lengra í baráttunni. Þeir ætla að gefa út sérstaka afmælisútgáfu af Uppruna tegundanna, og gefa hana hverjum sem vill eintak! Maður hlýtur að spyrja sig, af hverju í ósköpunum? Einhverjar annarlegar hvatir hljóta að liggja þarna að baki. Og jú, sá böggull fylgir nefnilega skammrifi að þessari útgáfu mun fylgja 50 síðna formáli, skrifaður af sköpunarsinnum. Þar benda þeir víst á kynþáttafordóma Darwins, kvennfyrirlitningu hans og, wait for it, augljós tengsl Adolfs Hitlers við þróunarkenninguna!

Nú ætla ég ekki einu sinni að reyna að þræta fyrir þessar ásakanir, enda eru þær sennilega allar sannar. Þær skipta hins vegar ENGU máli fyrir innihald kenninga Darwins. Ég ætla svo sem ekki að hafa fleiri orð um þetta, heldur benda á þetta frábæra myndband sem ég rakst á í gær, og varð kveikjan að þessari færslu. Þessi stelpa er helvíti hress, mæli með myndböndunum hennar um trúarbrögð.

Nýju fötin keisarans

Haha, seinni hluti þessarar klassísku sögu gleymist gjarnan.

Pepsi Max, jukk :S

Smakkaði Pepsi Max aftur um helgina í fyrsta skipti síðan 2004 eða þar um bil. Vorum að gefa þetta í vinnunni í tengslum við Guitar hero keppnina, og ég á núna 12 flöskur inní ísskáp. Þetta er ennþá svo til ódrekkandi en samt ekki alveg jafn vont og það var í minningunni. Maður getur þrælað þessu í sig ísköldu. Sem er kannski ágætt því að maður er víst eitthvað að reyna að taka til í mataræðinu þessa daganna. Hef ekkert drukkið gos í dag og er með heavy fráhvarfseinkenni. Sturtaði í mig maxinu áðan svo ég færi ekki útí 10/11 að kaupa kók. So far it’s working. Kannski hefði ég ekki átt að hætta að drekka gos og að taka í vörina sama daginn?

Tiltekt

Tók aðeins til í linkunum hérna hægra megin, enda ansi mörg blogg orðið óvirk á þessum síðustu og verstu Facebook tímum. Bætti nú samt við nokkrum linkum. Kiddi verslunarstjóri fékk link, sem og Teitur Atlason hinn hárbeitti Eyjubloggari og hinn stórskemmtilegi bloggari Baldur McQueen. Það er oft gaman að lesa blogg Baldurs um ástandið í íslensku þjóðfélagi þar sem hann hefur annað sjónarhorn en við sem erum hérna í miðri hringiðunni, búandi sjálfur í Englandi. Teit ættu svo allir að lesa sem láta sig framtíð Íslands einhverju varða en Teitur er mjög duglegur við að minna menn á hverjir það eru sem bera raunverulega ábyrgð á ástandi Íslands í dag, sjá t.a.m. grein hans um Tryggva Herbertsson og Sóma samlokur.

Pólítísk rétthugsun að ríða húsum?

Ég hef áður bloggað (hér ætti undir venjulegum kringumstæðum að vera linkur en ég nenni ekki að leita) um hvað mér leiðist það þegar lög eru ritskoðuð, sérstaklega í íslensku útvarpi því stöðvunum hlýtur að vera algjörlega í sjálfsvald sett hvaða útgáfur þær setja í spilun. Mörg lög missa algjörlega marks þegar orð eru ýmist „blípuð“ út eða jafnvel fjarlægð með húð og hári svo að eftir stendur götóttur texti og tómlegur taktur.

Einu sinni fyrir langa löngu kom út hið ágæta lag Play that funky music. Textinn olli víst einhverju fjaðrafoki, sumir þóttust greina einhvern kynþáttaníð lágt í mixinu og fleira í þeim dúr. En textinn sem slíkur er ósköp saklaus, og í þeirri útgáfu sem flestir hafa heyrt er ómögulegt að greina nokkur falin skilaboð. Þess vegna brá mér örlítið þegar ég heyrði þetta lag á Bylgjunni í kvöld, og í hvert skipti sem línan „white boy“ átti að hljóma var eins og diskurinn hoppaði til og lagið skippaðist um eina sekúndu eða svo, þannig „white boy“ datt út. Fyrst hélt ég að um rispu væri að ræða en svona gekk þetta allt til enda og aldrei var minnst á hvítan dreng. Ég var svo hissa á þessu öllu saman að ég hringdi inn á Bylgjuna og spurði einfaldlega hvenær White boy hefði týnst úr laginu Play that funky music white boy. Það er skemmst frá því að segja að þáttastjórnandinn kom af fjöllum og hafði sjálfur ekki veitt þessu athygli. Ég spurði hann því hvort að þetta væri einhver ný politically correct lagastefna á stöðinni, en hann kannaðist nú ekki við það, og fannst þetta eiginlega frekar fyndið allt saman. En eftir stendur samt sú spurning, af hverju í andskotanum er búið að klippa þessar línur útúr þessari útgáfu af laginu?

Þess má svo til gamans geta að sá sem syngur þetta ágæta lag er sjálfur bleiknefji, en ég hafði einhvern veginn alltaf séð manninn fyrir mér sem kolsvartan. En þá náttúrulega meika orðin „white boy“ engan sens. Ég hélt kannski að meintur rasismi væri kannski falinn í þeim orðum, að gaurinn væri sjálfur svartur en þeir sem væru að hrópa á hann vildu bara hvíta tónlistarmenn, en það er víst ekki raunin.

Fyrsti skóladagurinn

Viðburðaríkur dagur að kvöldi kominn. Fyrsti skóladagurinn var í dag og krakkarnir stríddu mér ekki neitt. Ég hata fyrstu vikurnar á hverri önn í Háskóla Íslands. Þá eru alltaf allir ofurduglegir að mæta, hvergi bílastæði og allt fullt allsstaðar. Engin sæti í Hámu, biðröð í bóksölunni, biðröð hjá nemendaskrá, biðröð, biðröð, biðröð. Já skipulagið í Háskóla Íslands verður seint metið til eftirbreytni.

Skellti mér líka á veiðikortsnámskeið strax eftir skóla sem stóð í hressandi sex tíma samfleytt sem var svo slúttað með prófi. Ég náði ekki að lesa bókina nema að hluta þar sem ég fékk hana ekki í hendur fyrr en í gær, en ég held að mér hafi nú samt tekist að leysa prófið þolanlega. Mér þótti það nú samt hálf illkvittnislega samið því fremsta síðan var áberandi þyngri en hinar sem á eftir fylgdu, þannig að fyrir menn (og konur, sem voru nokkrar á námskeiðinu) sem kannski ekki eru í mikilli próftökuæfingu hefur þetta eflaust virkað yfirþyrmandi, og jafnvel óyfirstíganlegt. Vonandi höfðu þeir þó þrek í að fletta á næstu blaðsíðu eins og ég.

Nú er bara að vona að löggan samþykki að taka við umsókninni minni um skotvopnanámskeið en á einhver ótrúlegan hátt hefur mér tekist að gleyma því að skila henni inn tvo daga í röð. Ég er að verða eitthvað svo gleyminn í ellinni.


Gullna hliðið

  • 26.134 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

RSS Kjaftasögur úr metalheimum

  • An error has occurred; the feed is probably down. Try again later.

Flokkar