Archive for the 'Uncategorized' Category

Nú gerist það

Fjögur tvö ár líða og loks er allt endanlega í steik.

Spurning um að reyna þetta aftur? Þó það séu reyndar deildar meiningar um það hvað ég megi segja á opinberum vettvangi og hvað ekki. Sjáum til.

Í takt við tímann

Það þyrfti nú einhver að uppfæra lúkkið á þessari síðu. Taka til í linkunum hérna hægra megin og uppfæra grunnupplýsingar (sem er víst eitt orð).

Á ég að gera það?

Tvær bækur, ördómar

Í sumar las ég tvær afar keimlíkar bækur. Fyrir utan það að vera í sama broti og hafa sama þýðanda, þá er forsíðumyndin í sama stíl (andlit sem er hulið að hluta) og efnið í grunninn það sama. Þær fjallar báðar um daglegt líf í lögreglu- og eftirlitsríkjum sem kenndu sig á einn eða annan hátt við kommúnisma. Annað þeirra hefur nú liðið undir lok en hitt lifir enn „góðu“ lífi. Umræddar bækur eru sum sé annarsvegar bókin „Engan þarf að öfunda“ sem fjallar um Norður-Kóreu og hins vegar „Stasíland“ sem fjallar um Austur-Þýskaland.

Stasíland er ágæt bók. Hún er skrifuð frekar nýlega, einhverjum 20 árum eftir að Berlínarmúrinn féll. Í henni er því verið að líta í baksýnisspegilinn. Hún veitir vissulega nöturlega (og áhugaverða) innsýn í starfshætti leyniþjónustunnar Stasí en hún er samt engan veginn jafn grípandi og Engan þarf að öfunda. Þar fyrir utan er stíllinn örlítið þreytandi og ruglingslegur á stundum. Höfundur blandar saman við frásögnina sínu eigin lífi meðan hún vann að heimildaöflun og stundum finnst manni eins og hún verði að hálfgerðri skáldsögu.

Kannski er það einmitt vegna þess að tímabilið sem er til umfjöllunar er liðið að bókin er ekki jafn spennandi og hin. Berlínarmúrinn er fallinn og Austur-Þýskaland er ekki lengur til. Þýskaland er líka nær okkur, bæði í menningu og bókstaflega, svo að fréttir þaðan hafa borist okkur nokkuð greiðlega síðustu ár. Það er fátt sem kemur manni á óvart í bókinni þó svo að þar komi vissulega margt mjög áhugavert fram. Austur-Þýskaland er bók sem verið er að loka meðan að N-Kórea er enn galopin, að einhverju leiti.

Þó svo að saga N-Kóreu sé enn opin er landið sjálft nokkurn veginn lokað í báðar áttir og sögurnar í bókinni eru flestar frekar nýlegar. Leyndin sem hvílir yfir öllu sem viðkemur þessu landi gerir þessa bók mun áhugaverðari aflestrar heldur en Stasíland. Oftar en ekki var ég hreinlega gapandi af undrun þegar ég las hana og ég átti oft mjög erfitt með að leggja bókina frá mér. Sérstaklega minnistæð er frásögnin af því hvernig mannaskít er safnað í fötur til þess að bera á tún og akra sem áburð.

Engan þarf að öfunda er einnig kröftugleg áminning um það hversu gott við höfum það á Vesturlöndum. Hlutir sem við göngum að sem sjálfsögðum, eins og rafmagn, er munaður víða um heim. „Þegar rafmagnið fer hverfur menningin“ stóð einhversstaðar í bókinni og þegar maður leiðir hugann að því þá áttar maður sig á því hversu alltumlykjandi rafmagn er í menningu okkar. Einfaldur hlutur eins og að lesa bók verður snúinn þegar þú getur ekki kveikt ljós til að sjá textann á blaðsíðunum.

Ég mæli hiklaust með báðum þessum bókum, þó sérstaklega þeirri síðari. Það er ekki á hverjum degi sem tíðindi berast frá Norður-Kóreu, en þarna kemur risa pakki. Bókin er öll byggð á viðtölum við fólk sem hefur flúið frá landinu enda væri ekki hægt að skrifa hana öðruvísi. Illt umtal um hið frábæra móðurland yrði aldrei liðið.

Helsta gagnrýnin á bókina hér á Íslandi beindist að þýðingunni. Bókadómurinn á dv.is er t.d. nánast alfarið um þýðinguna en ekki efni bókarinnar. Það má vissulega setja útá þýðinguna. Nokkrum sinnum stoppaði ég og las setningarnar yfir aftur því að orðaröðin var alveg útúr kú. En þetta hefur engin áhrif á heildarupplifunina og er bara smáatriði í heildarmyndinni.

Að ná sér í bíómynd (eða, allt sem er að internetinu)

Um daginn keypti ég DVD mynd handa dóttur minni. Áður en við gátum horft á myndina þurftum við að samt að horfa á auglýsingu sem ekki er hægt að spóla yfir.

Fyrir það fyrsta er auðvitað alveg óþolandi að þurfa að horfa á svona helvítis áróður þegar maður er búinn að borga fyrir myndina. Eða eins og Dara O’Briain sagði, það besta við að horfa á stolnar myndir er að maður þarf ekki að horfa á viðvörunina um að stela ekki myndum. En svona þar fyrir utan er þessi auglýsing um það bil eins heimskuleg og hugsast getur, og þeir sem bjuggu hana til vita EKKERT um það hvernig torrent heimurinn virkar. Þarna sjáum við hip og cool hóp af fólki sem hefur haft fyrir því að kaupa hard copy af bíómynd, og svo fylgjumst við með þeim njóta ávaxta erfiðis síns þar sem þau horfa á myndina í topp gæðum, borða popp og hafa gaman.

Á meðan er vondi kallinn einn og yfirgefinn í myrku herbergi að rembast við að downloada mynd á litla laptoppinn sinn, en auðvitað tekst það ekki hjá honum. Hið góða og bjarta sigrar alltaf hið vonda og dimma, þannig virka öll ævintýri og ég get ekki betur séð en að stjórnendur kvikmyndaveranna búi einmitt í ævintýralandi. Að minnsta kosti á þessi auglýsing ekkert skilt við raunveruleikann.

Raunveruleikinn er nefnilega sá að það er ótrúlega auðvelt og þægilegt að sækja sér mynd á netið. Meira að segja í topp gæðum, og margir eru búnir að tengja tölvur/spilara við stóru sjónvörpin sín og heimabíó og fá nákvæmlega sömu upplifun heim í stofu og þeir sem hafa fyrir því að kaupa myndir með öllu því umstangi (og peningaaustri) sem því fylgir.

Tökum nærtækt dæmi af sjálfum mér. Fyrir nokkrum dögum síðan vildi ungur frændi minn ólmur horfa á eins og eina góða zombie mynd. Í hillunni hjá okkur fann hann Land of the Dead á DVD (já, eintak sem ég BORGAÐI peninga fyrir!) en ég stakk uppá því að við myndum frekar horfa á Dawn of the Dead. Svo að ég kíkti á Leiguna hjá Vodafone, en hún var auðvitað ekki til þar. Það tók mig samt dágóða stund að komast að því, því að notendaviðmótið hjá þeim er gjörsamlega handónýtt. Svo að ég skellti mér bara á Dei**u.net og náði í myndina með íslenskum texta á u.þ.b. 3 mínútum.

Vandamálið sem kvikmyndaverin glíma við er ekki að menn vilji stela myndum (jú auðvitað líka). Vandamálið er að fólk sem vill borga fyrir efnið, getur það ekki, og í þau fáu skipti sem það getur á annað borð borgað er erfitt að nálgast efnið, leigutíminn takmarkaður, gæðin léleg eða verðið of hátt. Jafnvel allir þessir gallar í einum pakka. Og þetta er ekkert að fara að breytast í nánustu framtíð. Stóru kallarnir í Hollywood eru ekki í neinum tengslum við neytendur, þeir vilja bara kreysta eins margar krónur og þeir mögulega geta útúr hverri einustu mynd. Við getum alveg gleymt því að þeir bakki eitthvað í sinni afstöðu.

Þangað til munu torrent síðurnar lifa góðu lífi og allir halda áfram að borga núll krónur fyrir sína afþreyingu.

Mottu-mars er glapræðishugmynd!

Mottu-mars er ein alversta hugmynd sem skotið hefur upp kollinum á Íslandi í langan tíma. Það er einfaldlega óðs manns æði að menn nauðraki sig í einum kaldasta mánuði ársins! Þetta fann ég vel á eigin skinni síðustu tvo daga þar sem ég vann útivinnu í hríðarkófi. Væri ekki miklu nær að taka upp nýja og skemmtilegri hefði, nefnilega allskeggs-apríl. Þannig gætu íslenskir karlmenn lagt í alskegg í febrúar og mars og ornað sér í andlitinu um leið meðan kuldaboli þenur sig hvað mest. Svo vita líka allir að snyrtilegg alskegg eru miklu klæðilegra heldur en perraleg motta nokkurn tíman!

Ef að einhver grætur það mjög að mottu-mars leggist af, er einfaldlega hægt að færa motturnar fram í maí. Þar með höldum við stuðluninni á m-unum og íslenskir karlmenn geta kastað vetrarbúningnum úr andliti sínu á vormánuðum.

Ég ásamt Jack Passion, heimsmethafa í skeggvexti, og Phil Olsen, fyrirliða bandaríska skegglandsliðsins.

Kvikmyndadómur: La Horde (2009)

Ég horfði á frönsku dauðyflamyndina La Horde, eða Mergðin eins og ég vil kalla hana á íslensku, um helgina. Eins og alkunna er, er ég mikill aðdáandi hvers konar heimsendamynda og ég leyfði mér því að vera pínulítið spenntur fyrir þessari. Hún hafði fengið töluverða umfjöllun, trailerinn var t.d. featured video á Youtube, og mér finnst alltaf spennandi þegar einhverjir aðrir en Hollywood reyna við dauðyflageirann. Norðmenn komust t.d. snilldarlega frá honum með Dead Snow. Lítum á trailerinn:

Þessi stikla lítur alls ekki illa út, og raunar er sjónræni hlutinn lang sterkasti hluti myndarinnar. Dauðyflin eru mjög sannfærandi, það er töluverður splatter og ágætis hasaratriði inná milli, sérstaklega undir lokin. En þegar kemur að handritinu fatast Frökkunum flugið all hrapalega og lenda harkalega með andlitið á undan sér.

Myndin gerist í stórri gamalli blokk sem hefur verið yfirgefin að nafninu til. Aðeins er búið í örfáum íbúðum. Setjum okkur í spor sögupersónanna. Nú brýst út heimsendir, eða svo gott sem. Þú veist ekkert hvað er að gerast. Maður sem að þú hélst að væri dauður lifnar við og reynir að éta fólk. Fljótlega sjást fleiri slík kvikindi og þegar þú lítur útum gluggann sérðu að blokkin er umkringd dauðyflum. Í fjarska sést að borgin stendur í ljósum logum og sprengingar berast einnig þaðan. Hvert er þá næsta rökrétta skref? Ég, og flestir skynsamir menn eru sennilega sammála, myndi vígbúast í blokkinni. Það eru sennilega ekki til betri hús til að verjast dauðyflaárásum en blokkir. Þessi blokk er líka svo gott sem tóm, og í ofanálag er þar að finna helling af vopnum. Það eina rökrétta í stöðunni er að halda kyrru fyrir, þó ekki væri nema til morguns.

En það er alls ekki það sem gerist. Myndin fjallar í upphafi um uppgjör milli glæpaklíku og lögreglumanna, sem neyðast til að standa saman gegn dauðyflunum. Hópurinn hefur engan ytri hvata til að yfirgefa bygginguna og hlaupa í ginið á dauðyflum sem þrá ekkert heitara en að kjammsa á innyflum þeirra. En samt virðist þeim finnast það góð hugmynd, og raunar eini kosturinn í stöðunni.

Eins og sést á myndinni hér að ofan er ógeðslega fokking mikið af dauðyflum í þessari mynd, og það er það besta við hana. Órökréttar ákvarðanir skila áhorfendum djöfull blóðugum bardagasenum, en þær ná ekki að bæta manni upp fyrir pirringin yfir heimsku persónanna. Forsendur atriðisins hérna fyrir ofan eru t.d. fáránlegar. Sjón er sögu ríkari.

Ég get ómögulega mælt með þessari mynd nema fyrir allra hörðustu uppvakninga og dauðyflaaðdáendur.

Einkunn: 5/10

Guð er ekki hér (né annarsstaðar)

Ég hef áður bloggað um þá augljósu staðreynd að guð sé ekki til, og ef hann er til þá er hann asni. Flestir þeir sem á annað borð þakka guði fyrir allt gott sem gerist virðast einfaldlega snúa blindu auga að öllu því slæma sem gerist í heiminum. Sumir reyndar eru tilbúnir að túlka slæma hluti sem órannsakanlega vegi guðs, og ég veit satt best að segja ekki hvor túlkunin mér þykir verri.

Það er endalaust hægt að benda á dæmi um hræðilega hluti sem algóður guð hefði með réttu áttu að koma í veg fyrir. Á dögunum rakst ég þó á mjög persónulegt dæmi. Lestur þess gerði mig bæði reiðan og pirraðan. Eftirfarandi texti er tekin úr bókinni Verndum þau, bls. 32:

12 ára gömul stúlka sagði frá því að hún væri alveg hætt að trúa á guð og ætlaði ekki að láta ferma sig, hún hataði guð. Þetta sagði hún í skólanum í umræðu um fermingar. Þegar rætt var við stúlkuna einslega og hún beðin að útskýra betur hvað hún hefði átt við með tali sínu sagði hún: „Ég hætti að trúa á guð fyrir nokkrum árum. Þegar ég var lítil bað ég guð alltaf um að stjúpi minn kæmi ekki inn til mín á nóttunni en guð hjálpaði mér aldrei því hann kom alltaf. Ég bað og bað um að fá að sofa eina rólega nótt þegar mamma var að vinna en guð hjálpaði mér aldrei. Þá hætti ég að biðja bænirnar mínar því það þýddi ekki neitt. Guð er ekki til, ég hef sönnun fyrir því,“ sagði stúlkan og bætti við: „Ef guð hefði raunverulega verið til hefði hann hjálpað stelpu eins og mér sem bað svona fallega.“

Ofbeldi gegn börnum snertir viðkvæma taug hjá flestum heilbrigðum einstaklingum, og þá sérstaklega þeim sem eiga sjálfir börn eins og ég. Það sem stakk mig þó mest við lestur þessarar harmsögu, er hið innbyggða hjálparleysi sem börnum er innrætt með trúnni. Börnum er kennt að Jesú sé vinur þeirra sem er alltaf hægt að tala við. Ef einhver vill mótmæla og segja að slíkt tal eigi ekki að taka bókstaflega, hvet ég þann hinn sama til að heimsækja kirkju með barninu sínu næst þegar leikskólinn fer þangað.

Í þessu tilfelli setti stúlkan allt sitt traust á uppskáldaða veru sem getur engum hjálpað, en hún trúði því í einlægni að guð myndi hjálpa henni. Það er stundum sagt að trúarbrögð séu mönnum andleg hækja og jafnvel nauðsynleg sem slík, en þarna var trúin augljóslega orðin fjötur um fót og það er hrikalegt til þess að hugsa að stúlkan skyldi ekki segja neinum frá misnotkuninni því hún var alltaf að bíða eftir því að guð myndi grípa inní. Börn eiga flest mjög erfitt með að segja frá því þegar þau eru misnotuð, en vinir þeirra eru oftast þeir sem fyrstir heyra af því. En þegar vinurinn er ekki til í raunveruleikanum eru litlar líkur á að einhver sem raunverulega getur hjálpað muni nokkurn tíman heyra af vandamálinu.

Kannast ekki allir við þennan nemanda?

Blogg í kennslu?

Spurt er, er hægt að nota blogg í námi og kennslu?

Svar mitt er já. Bæði nemendur og kennarar ættu að geta nýtt sér kosti þess. Kennarar t.d. geta miðlað námsefni í gegnum það og ég sé fyrir mér að blogg frá kennara gæti nýst vel í fjarnámi. Nemendur geta svo skilað inn allskonar verkefnum, eins og t.d. lestrardagbókum, en gallinn við bloggkerfið er að hver og einn nemandi hefur fulla stjórn yfir sinni síðu, og getur þ.a.l. fegrað verk sín eftir á. Umræður geta líka farið fram á bloggsíðum, en það gerist fyrir algjörlega opnum dyrum, og aftur geta skapast vandamál tengd ritskoðun.

Annar stór ókostur er að blogg eru oftar en ekki persónuleg málgögn þeirra sem þau rita. Ég er þess vegna ekki viss um að það sé æskilegt að tengja einkabloggsíður (eins og þessa) við nám sitt, hvort sem maður er kennari eða ekki. En það er auðvitað enginn vandi að stofna nýtt blogg, þó svo að ég hafi ekki nennt því í þetta skiptið.

Gæsaveiðitímabilið hafið

Þá er fyrsti gæsaveiðitúr haustsins að baki. Þetta var reyndar ekki bara fyrsti túr haustsins, heldur líka fyrsta skotveiðiferðin sem ég fer í á eigin spýtur, þ.e. ekki með pabba til að halda í höndina á mér. Svo til allir væntanlegir veiðifélagar forfölluðust, svo að á endanum fórum við bara tveir, ég og Aggi. Þannig að þó að þetta hafi verið fámennt var afar góðmennt. Aggi sá um matseldina og framreiddi dýrindis lamba fillé, ekki amalegt!

Veiðilendurnar í þetta skiptið voru sveitir Borgarfjarðar, nánartiltekið á Mýrunum. Við gistum á Hofsstöðum, þar sem að systir mín hefur ítök, en lögðumst út í landi Þverholts. Við komum á staðinn seinnipart laugardags en þá var vart þverfótað fyrir gæs. Öll tún full og mikið flug. Við eyddum því sem eftir lifði í birtu í að kanna aðstæður og finna okkur hentugan veiðistað og lögðust síðan til hvílu eftir góðan kvöldverð, enda áætlað að vakna klukkan 4. Um 5 leytið vorum við búnir að stilla upp gervigæs og tilbúnir að veiða grimmt, enda handvissir um að sjá gæsir í hundraða ef ekki þúsunda tali miðað við fjöldann daginn áður, og lýsingar Hilmars í Þverholti.

En eftir allar þessar væntingar og vænlega útlit fengum við enga gæs! Raunar komust við bara einu sinni í færi, ég skaut einu skoti og svo stóð byssan á sér. Týpískt! Traffíkin var afar lítil þennan morgun, en við lágum þarna í grasinu í rúma 6 tíma. Ef að þessi veiðiferð er krufin niður má greina skort á þrennu sem kom í veg fyrir veiðar.

1) Skortur á gæsum. Það var einfaldlega ekki mikið um fugla þennan morgun.

2) Skortur á vindi. Þegar það er svona stilltur vindur geta gæsirnar hringsólað að vild áður en þær lenda, sem eykur stórlega líkurnar á því að veiðimennirnir sjáist.

3) Skortur á veiðireynslu. Sennilega vorum við full æstir á flautunum þegar líklegasti hópurinn bjó sig til lendingar. Mig grunar líka að við höfum ekki falið okkur nógu vel.

En þessi túr var til þess að læra af honum. Næst bætum við úr öllu þessu sem klikkaði. Planið er að halda aftur til veiða þegar það verður aðeins meiri vindur, og jafnvel eftir að það fer að frysta meira á nóttunni, en þá skilst mér að gæsirnir hópist meira saman, og streymi líka meira niður af hálendinu.

Um leið og við lágum við túnin í Þverholti lágu Hemmi á Stað og félagi hans við Hofsstaði, en þar er búið að rækta upp kornakur. Þar var sama uppá teningnum, lítil traffík en þeir höfðu þó sex fugla. Það er skemmst frá því að segja að næsta morgun höfðu þeir 60 fugla! Gæsin er svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin, en ég er sannfærður um að það gengur betur næst.


Gullna hliðið

  • 26.134 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

RSS Kjaftasögur úr metalheimum

  • An error has occurred; the feed is probably down. Try again later.

Flokkar