Guð er ekki hér (né annarsstaðar)

Ég hef áður bloggað um þá augljósu staðreynd að guð sé ekki til, og ef hann er til þá er hann asni. Flestir þeir sem á annað borð þakka guði fyrir allt gott sem gerist virðast einfaldlega snúa blindu auga að öllu því slæma sem gerist í heiminum. Sumir reyndar eru tilbúnir að túlka slæma hluti sem órannsakanlega vegi guðs, og ég veit satt best að segja ekki hvor túlkunin mér þykir verri.

Það er endalaust hægt að benda á dæmi um hræðilega hluti sem algóður guð hefði með réttu áttu að koma í veg fyrir. Á dögunum rakst ég þó á mjög persónulegt dæmi. Lestur þess gerði mig bæði reiðan og pirraðan. Eftirfarandi texti er tekin úr bókinni Verndum þau, bls. 32:

12 ára gömul stúlka sagði frá því að hún væri alveg hætt að trúa á guð og ætlaði ekki að láta ferma sig, hún hataði guð. Þetta sagði hún í skólanum í umræðu um fermingar. Þegar rætt var við stúlkuna einslega og hún beðin að útskýra betur hvað hún hefði átt við með tali sínu sagði hún: „Ég hætti að trúa á guð fyrir nokkrum árum. Þegar ég var lítil bað ég guð alltaf um að stjúpi minn kæmi ekki inn til mín á nóttunni en guð hjálpaði mér aldrei því hann kom alltaf. Ég bað og bað um að fá að sofa eina rólega nótt þegar mamma var að vinna en guð hjálpaði mér aldrei. Þá hætti ég að biðja bænirnar mínar því það þýddi ekki neitt. Guð er ekki til, ég hef sönnun fyrir því,“ sagði stúlkan og bætti við: „Ef guð hefði raunverulega verið til hefði hann hjálpað stelpu eins og mér sem bað svona fallega.“

Ofbeldi gegn börnum snertir viðkvæma taug hjá flestum heilbrigðum einstaklingum, og þá sérstaklega þeim sem eiga sjálfir börn eins og ég. Það sem stakk mig þó mest við lestur þessarar harmsögu, er hið innbyggða hjálparleysi sem börnum er innrætt með trúnni. Börnum er kennt að Jesú sé vinur þeirra sem er alltaf hægt að tala við. Ef einhver vill mótmæla og segja að slíkt tal eigi ekki að taka bókstaflega, hvet ég þann hinn sama til að heimsækja kirkju með barninu sínu næst þegar leikskólinn fer þangað.

Í þessu tilfelli setti stúlkan allt sitt traust á uppskáldaða veru sem getur engum hjálpað, en hún trúði því í einlægni að guð myndi hjálpa henni. Það er stundum sagt að trúarbrögð séu mönnum andleg hækja og jafnvel nauðsynleg sem slík, en þarna var trúin augljóslega orðin fjötur um fót og það er hrikalegt til þess að hugsa að stúlkan skyldi ekki segja neinum frá misnotkuninni því hún var alltaf að bíða eftir því að guð myndi grípa inní. Börn eiga flest mjög erfitt með að segja frá því þegar þau eru misnotuð, en vinir þeirra eru oftast þeir sem fyrstir heyra af því. En þegar vinurinn er ekki til í raunveruleikanum eru litlar líkur á að einhver sem raunverulega getur hjálpað muni nokkurn tíman heyra af vandamálinu.

6 Responses to “Guð er ekki hér (né annarsstaðar)”


  1. 1 Eyrún janúar 27, 2011 kl. 12:39 e.h.

    Hæ Siggeir,

    Ég verð að fá að skrifa þér smá um mína túlkun á Guði þar sem ég hef ekki sömu skoðun og þú og mig langar til að segja þér frá minni.

    Ég er sammála þér með það sem þú skrifar þarna, þetta er hræðilegt dæmi og auðvitað vildi maður að svona myndi aldrei gerast. Því ætla ég ekki að mótmæla. Í rauninni ætla ég ekki að mótmæla neinu.

    Ég lenti í svipuðum aðstæðum þegar ég var lítil, en sem betur fer var þar engin misnotkun í gangi, ekki misskilja mig. Ég skipti um skóla og hitti þar af leiðiandi gömlu vinkonur mínar minna og var eitthvað tregari við að kynnast nýjum krökkum í nýja skólanum. Ég grátbað Guð á hverju kvöldi að gefa mér vinkonu og treysti honum fyrir því að hjálpa mér. En ekkert gerðist. Ég skildi þetta ekki því ég grátbað og sagðist ætla að vera svo góð stelpa en hann gerði ekkert til að hjálpa mér.

    Þá fór ég að hugsa, ég hlýt þá að vera vond, því ef Guð er góður og guð er almáttugur þá hlýtur það að vera ég sem er á einhvern hátt vitlaus.

    Svo ég hætti að trúa á Guð. Fattaði að ég skapa mín eigin örlög og ég hætti að þurfa á honum að halda.

    Svo deyr Pabbi minn. Þá fer maður að endurmeta stöðuna svolítið. Hvert fór hann? Er hann bara rotnandi í jörðinni? Allt sem hann var er það bara farið? Kemur hann aldrei aftur? Er lífið bara búið? Er enginn annar tilgangur en að komast í gegnum vinnudaginn, borga skuldir, hvera hress og svona?

    Mig langar til að trúa því að það sé einhver æðri tilgangur, að við séum ekki æðsta vitsmunaveran hér í þessari tilvist. Að það sé eitthvað sem tengir okkur saman. Einhver kraftur sem heldur áfram eftir að við förum frá þessu jarðneska.

    Guð er ekki gamall kall uppí skýjunum sem ræður verörldinni og getur breytt gangi himintunglanna með því að smella fingrunum. En það að guð er almáttugur og hann er góður og ég er góð gengur ekki upp. Afhverju bjargaði hann þá ekki pabba mínum? Afhverju dó hann þá því hann var mjög góður maður?

    Þess vegna í minni trú (og það er bara min trú, aðrir mega hafa þetta alveg eins og þeir vilja) er Guð ekki almáttugur. Hann getur ekki bara bjargað þessum og hinum því þeir eru betri en hinir, hann getur ekkert bjargað mér því að ég er góð ef ég hoppa niður af húsi. Ef ég hoppa niður af húsi þá meiði ég mig. Sama hversu góð ég er. Hann er meira svona kraftur sem hægt er að sækja í og vill manni vel. Hægt að tala við og segja til dæmis í mínu tilfelli: úff mér finnst ofsalega erfitt að sætta mig við að pabbi minn sé dáinn, ég sakna hans. Geturu gefið mér styrk til að komast í gegnum þennan erfiða tíma. Ég er ekki að biðja hann um að taka þetta frá mér eða gefa mér pabba minn aftur. Hann getur það ekki.

    Vonandi er þetta skiljanlegt og bara sagt í góðvild til að sýna þér hvernig ég hugsa þessi flóknu mál.

    Eyrún

  2. 2 siggeir janúar 27, 2011 kl. 1:09 e.h.

    Sæl Eyrún og takk fyrir innleggið!

    Ég held að það sé manninum eðlislægt að halda í vonina, von um eitthvað sem tengir okkur saman í eftirlífinu, og ég hef raunar alls ekkert við slíka von að athuga. Ég þykist geta lesið það útúr þínum skrifum að þú sért nokkurn veginn búinn að afskrifa þann guð sem birtist okkur í Biblíunni, enda er ansi margt í þeirri bók sem er ekkert sérstaklega fallegt.

    Eins og ég segi, ég sé ekkert að því að trúa á vonina. Hún er það sem heldur mörgum gangangi. Þegar menn ná að losa sig úr kreddufesti kennisetninga Biblíunnar, sem flestar eiga ekkert erindi við nútíma samfélag, er björninn að mestu unninn.

    Það sem ég á erfiðast að sætta mig við erum skipulögð trúarbrögð og innræting vafasamra kennisetninga. Trú eins og þinni hef ég ekkert á móti, þó ég sé á öndverðri skoðun, og meðan hún hjálpar þér og veitir þér styrk held ég að allir séu sáttir 🙂

  3. 3 Árni janúar 27, 2011 kl. 7:25 e.h.

    Ég er hjartanlega sammála þessum pistli þínum. Varðandi hins vegar þessa margumtöluðu „von“ þess efnis að það sé eitthvað eftirlíf þá er það tvíeggjað sverð í mínum huga. Ég t.d. hvorki trúi né vona að það sé eftirlíf, einfaldlega vegna þess að mig langar ekkert til að lifa að eilífu, og svo á hinn bóginn þá þekki ég mjög marga sem eru mér mjög kærir sem mundu aldrei fara á „réttan“ stað í eftirlífinu, og hvernig á ég þá að geta notið þess að lifa í einhverri skýjaborg vitandi af ættingjum og vinum kveljast í svokölluðu helvíti ?

    Svo er eitt annað sem kemur fram í athugasemd #1, það er að segja að fólk fer að kenna sjálfu sér um ef bænum er ekki svarað, hugsanlega sé beðið vitlaust eða eitthvað álíka. Í mínum huga er þetta bara rugl, ef guð er til og er alvitur þá þarf ekki að orða bænina á einhvern hárréttan máta til að hún skiljist.

  4. 4 siggeir janúar 27, 2011 kl. 7:45 e.h.

    Árni er ég þér nokkurn veginn sammála, fyrir mér er þessi von óþörf, ég get sætt mig við endanleika hins jarðlega lífs. Ég skil hins vegar vel að sumir eigi erfitt með það og ég vil ekki taka vonina frá þeim, held að vonin geti engan skaðað.

    Varðandi himnaríki vs. helvíti. Ef maður er á annað borð búinn að kasta guðshugmynd Biflíunnar fyrir róða, er þá nokkuð því til fyrirstöðu að ditch-a helvíti líka og leyfa sér að trúa á himnaríki (eða ígildi þess) eingöngu?

  5. 5 Árni janúar 27, 2011 kl. 9:44 e.h.

    Nei auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu, en ég var nú að svara þessu út frá heimsmynd Biblíunnar, sem er jú það sem við þekkjum best hér á Íslandi.

    Hins vegar tel ég von oft ofmetna, tel að oft sé best að sætta sig við hlutina eins og þeir eru frekar en að lifa í draumaheimi.

  6. 6 Aldís B febrúar 5, 2012 kl. 12:41 e.h.

    Guð er hér (og alls staðar)
    Ég skora á þig, Siggeir, að gera á þessu vísindalega könnun og biddu(eins og ég, gerði 31 árs – nær andvana af harmi): „Guð, fyrirgefðu frekjuna, en sannaðu að þú ert ti.“ Fáeinum dögum síðar tjáði Guðrún Ás, leikkona, mér að Örn nokkur Ómar,glímukappi, hefði hringt í sig frá Noregi til að segja henni (GÁ)frá því að þegar hann hefði legið á bæn deginum áður hefði Guð lagt honum á hjarta að biðja fyrir „Aldísi“ svona: „Bið þú fyrir hjarta Aldísar að það læknist“ og síðan, að bæn sinni lokinni, sagðist Örn Ómar hafa séð í sýn hvernig hjarta umræddrar Aldísar (sem er ég), er var klofið í tvennt, varð heilt.
    Hvernig gat ég þá annað en trúað,Sigurgeir, þá hér með var komin óræk sönnun. Svo ég endurtek, gerðu slíkt hið sama og vittu hvað gerist! PS.Og hvað varðar stúlkuna tá arna, þá vildi ég svo gjarnan fá að tala við hana og segja henni mína sögu, alla – sem fyrir löngu hefur fengið hamingjusamlegan endi, henni til hughreystingar sem og sönnunar, að Guð elskar hana og hjálpar henni, alveg eins og mér forðum.


Færðu inn athugasemd




Gullna hliðið

  • 26.134 æstir aðdáendur hafa gengið hratt og örugglega um gleðinnar dyr

Sjálfhverfar undirsíður

RSS Kjaftasögur úr metalheimum

  • An error has occurred; the feed is probably down. Try again later.

Flokkar